Fara í efni

Skrifað undir samstarfssamning um öryggismál ferðamanna

Safetravel 2010
Safetravel 2010

Í gær skrifuðu 16 aðilar, sem koma að ferðaþjónustu á einn eða annan hátt, undir samstarfssamning í Krýsuvík um öryggismál ferðamanna undir heitinu Safetravel. Verkefnið er að frumkvæði Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, sem hefur á síðustu árum í auknu mæli beitt sér í öryggismálum ferðafólks og forvörum því tengt.

Í frétt frá Landbjörgu kemur fram að ef banaslysatölur eru skoðaðar nokkur ár aftur í tímann má sjá að all mörg banaslys hafa orðið hjá erlendum ferðamönnum hér á landi. Slys sem eru ekki einsleit heldur tengjast umferð, sjó, jöklum, gönguferðum og fleiri þáttum. Slys sem hugsanlega hefði mátt fyrirbyggja með öflugri forvörnum.

Hálendisvakt björgunarsveitanna
Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur á undanförnum árum beitt sér í auknu mæli í öryggismálum ferðamanna. Hálendisvakt björgunarsveitanna er nú hluti af Safetravel verkefninu en síðastliðin fjögur sumur hafa björgunarsveitir verið á hálendinu yfir sumartímann ferðamönnum til aðstoðar og leiðbeiningar með það að markmiðið að fækka slysum. Síðasta sumar voru sveitir þar í rúmar sex vikur og skiluðu tæplega 19.000 vinnustundum í sjálfboðalvinnu. Aðstoðarbeiðnum hjá hálendisvaktinni hefur fjölgað gífurlega. Árið 2008 voru þær 367 en  931 sumarið 2009.  Helstu verkefni sveita voru aðstoða við vöð, veita fyrstu hjálp í sambandi við slys, veikindi og ofkælingu, sinna leit, leiðbeina og fræða ferðamenn og aðstoð með bíla.

Forvarnir efldar
Í ár var ákveðið að ganga skrefinu lengra og efla forvarnir, m.a. með því að ná saman sem flestum þeirra aðila er koma að öryggi ferðafólks með einum eða öðrum hætti. Leitað var samstarfs félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana í þeim tilgangi að nýta betur fjármuni, þekkingu og reynslu allra þeirra sem hafa verið að sinna þessum málum hingað til.
 
Eftirfarandi aðilar koma að Safetravel verkefninu:

Slysavarnafélagið Landsbjörg
Iðnaðarráðuneytið
Neyðarlínan  112
Vegagerðin
Ferðafélag Íslands
Veðurstofa Íslands
Samtök ferðaþjónustunnar
Ríkislögreglustjóri
Íslandsspil
Fíb
Síminn
Sjóvá
Ferðafélagið Útivist
Umhverfisstofnun
4x4
Umferðarstofa

Safetravel.is
Þessir aðilar hafa tekið höndum saman og sameinast um einn stað þar sem allar upplýsingar um örugga ferðamennsku eru aðgengilegar. Sá staður er heimasíðan www.safetravel.is og blaðið Safetravel. Þar eru aðgengilegar upplýsingar um akstur, gönguferðir, siglingar, köfun, sund, jöklaferðir, vélsleðaferðir, hellaferðir, hjólreiðar, skyndihjálp, hestaferðir, íslenska náttúru og veður svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt verða tengingar inn á kort, færð, veður og það helsta sem er á döfinni í afþreyingu.
 
Blaðið Safetravel verður aðgengilegt á upplýsingamiðstöðvum, við Norrænu, á Keflavíkurflugvelli, í bílaleigubílum og víðar þar sem ferðamenn koma við. Það er á þremur tungumálum; ensku, þýsku og frönsku.

Heimasíðan www.safetravel.is er á sex tungumálum; íslensku, ensku, frönsku, þýsku, spænsku og ítölsku. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um ferðamennsku á Íslandi og munu allir helstu ferðaþjónustuaðilar auglýsa hana á sínum vefsvæðum. Er það von þeirra sem að verkefninu koma að þannig megi ná til erlendra ferðamanna áður en þeir koma til landsins og að þeir lesi sér til um öryggisatriði sem eiga við um þeirra ferðamáta áður en ferðalagið hefst. Vefsíðan nýtist einnig íslensku ferðafólki auk þess fjölmiðlar, bæklingar og auglýsingar í útvarpi og blöðum verða notaðar til að ná til þess hóps.

Á myndinni má sjá og Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra skrifa undir samninginn á meðan Hannes Frímann Sigurðsson, úr stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar, fylgist með. Myndirna tók Sigurður Ó. Sigurðsson.