Fara í efni

Skrifað undir Reykjavíkuryfirlýsinguna í ferðamálum

Fulltrúar aðildarlanda Evrópska ferðamálaráðsins á sviðinu í Hörpu í gær.

Það var stór stund í Hörpu í gær þegar skrifað var undir yfirlýsingu í ferðamálum kennda við Reykjavík "The Reykjavík Declaration". Um er að ræða sameiginlega yfirlýsingu allra 35 aðildarlanda Evrópska ferðamálaráðsins, European Travel Commission -ETC.

 

Íbúar og samfélög sett í fyrsta sæti

Yfirlýsingin leggur áherslu á að í ferðaþjónustu Evrópu verði íbúar og samfélög sett í fyrsta sæti — að ferðaþjónusta skapi virði fyrir samfélagið, styðji menningu og náttúru og taki mið af velferð heimamanna.

Skilgreind er sú framtíðarsýn að markmið ferðaþjónustu í Evrópu sé að auka velferð íbúa allrar álfunnar. Með yfirlýsingunni skuldbinda aðildarlönd ETC sig að stuðla að blómlegum samfélögum, verndun menningar- og náttúruauðlinda og að samskipti gesta og heimamanna byggist á gagnkvæmri virðingu.

Með því lauk 2ja daga dagskrá sem Ferðamálastofa skipulagði í samvinnu við ETC. Hún innihélt m.a. aðalfund og stjórnarfund sambandsins og heils dags ráðstefnu í Hörpu undir yfirskriftinni „Tourism and Communities: Building Bridges Amid Unbalanced Growth.“

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri og Eduardo Santander, framkvæmdastjóri ETC, staðfestu yfirlýsinguna með undirskrift sinni fyrir hönd aðildarlandanna.