Fara í efni

Skíðasvæðið í Tindastóli nýtur vaxandi vinsælda

Skíðasvæði í Tindastóli
Skíðasvæði í Tindastóli

Vaxandi aðsókn hefur verið að skíðasvæði Skagfirðinga í Tindastóli í vetur. Á dögunum var það líka ásamt fleiri skíðasvæðum kynnt á skíðadegi sem Skíðasamband Íslands stóð fyrir í Kringlunni.

Jakob Frímann Þorsteinsson, forstöðumaður upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra í Varmahlíð, segir að fólk sem komið hafi á skíði í Tindastóli sé yfir höfuð ánægt með svæðið og mat þeirra sem til þekkja sé að svæðið eigi góða möguleika á að vaxa. ?Við fengum einnig ýmsar gagnalegar ábendingar frá fólki sem kom í heimsókn á skíðadeginum í Kringlunni. Meðal annars að við þyrftum að kynna betur hve stutt svæðið er frá Reykjavík, þ.e. kynna leiðina um Þverárfjall, og einnig standa betur saman að móttöku gesta okkar, m.a. varðandi opnun sundlauga o.fl. Veturinn hefur hingað til verið góður skíðavetur, hér sem og víðar á landinu. Áhugi á íþróttinni er vaxandi enda er skíðaiðkun góð fyrir alla fjölskylduna þar sem sál og líkami endurnærist í heilnæmu fjallalofti,? segir Jakob Frímann.

Í lok janúar hafði svæðið samtals verið opið í 41 dag og um 2000 gestir komið á skíði. Óvenju mikið var t.d. opið fyrir áramótin í Tindasóli og í raun er fátítt að skíðasvæði séu yfir höfuð opin fyrir jól.  Að jafnaði er opið fimm daga vikunnar, þ.e. þriðjudaga, miðvikudaga,  föstudaga, laugardaga og sunnudaga og til stendur að lengja opnunina í febrúar. Ef um hópa er að ræða þá segir Jakob Frímann hægt að hafa lengur opið sé þess er óskað.