Fara í efni

Sigrún Hlín lætur af störfum

Sigrún Hlín stendur hér vaktina á World Travel Market í London, einu sinni sem oftar.
Sigrún Hlín stendur hér vaktina á World Travel Market í London, einu sinni sem oftar.

Sigrún Hlín Sigurðardóttir lætur nú um mánaðamótin af störfum hjá Ferðamálastofu. Sigrún Hlín er reyndasti starfsmaður stofnunarinnar en hún kom til liðs við hana í maí 1995.

Markaðs- og kynningarmál Íslands

Sigrún Hlín hefur komið að fjölmörgum verkefnum en mest hefur hún þó starfað að markaðs- og kynningarmálum. Hún hafði t.d. um árabil umsjón með Bretlandsmarkaði og var síðar markaðsstjóri Ferðamálastofu.

400% vöxtur

Ferðaþjónustan hefur sannarlega vaxið og dafnað á starfstíma Sigrúnar og má til gamans benda á að fjöldi erlendra gesta hefur farið úr tæplega 160.000 í yfir 800.000, sem er vöxtur upp á rúm 400%.

Hafsjór af fróðleik

Um leið og starfsfólk Ferðamálastofu óskar Sigrúnu Hlín velfarnaðar um ókomin ár og þakkar sérlega ánægjulegt samstarf, er ljóst að skarð hennar verður ekki auðveldlega fyllt. Hún er hafsjór af þekkingu og fróðleik um greinina, sem ómetanlegt hefur verið fyrir viðskiptavini og samstarfsfólk að geta leitað í. Því fylgja Sigrúnu Hlín á þessum tímamótum ekki aðeins árnaðaróskir, heldur einnig vinsamleg tilmæli að skilja símann ekki of lengi við sig. ;)