Fara í efni

Selasetur Íslands formlega opnað

Selasetur opnað 1
Selasetur opnað 1

Síðastliðinn sunnudag opnaði Sturla Böðvarsson Selasetur Íslands á Hvammstanga með formlegum hætti. Sýningaraðstaða Selasetursins er til húsa í gamla verslunarhúsnæði Sigurðar Pálmasonar. Jafnframt er þar almenn upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn með upplýsingum um athyglisverða áfangastaði og afþreyingu í Húnaþingi. Ferðamálastofa er meðal aðila sem styrkt hafa verkefnið.

Staðsetning Selasetursins er ekki tilviljun. Mikill fjöldi selja heldur sig jafnan úti fyrir ströndinni við Vatnsnes og upp í fjöru. Hindisvík er til að mynda talinn einn hentugasti staðurinn hérlendis til selaskoðunar. Hvalaskoðun hefur sem kunnugt er orðið verulegur þáttur í ferðaþjónustu á tilteknum stöðum og er von þeirra er standa að stofnun Selasetursins að hægt verði að nýta selinn í svipuðum tilgangi. Í Selasetrinu gefst fólki kostur á að fræðast nánar um seli og lífshætti þeirra, samskipti sela og manna í víðu samhengi og þjóðsögur þeim tengdar. Þá er ætlunin að byggja upp selaskoðunarstaði á Vatnsnesi.

Heiðursgestir opnunarhátíðarinnar voru Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra. Sturla sagði meðal annars í ávarpi sínu: ,, Selurinn hefur verið mikilvægur þáttur í búsetu okkar og Íslendingar hafa nytjað selastofna við landið um aldir. Landselur og útselur hafa veitt birtu og yl í ýmsum skilningi. Þessar nytjar af selnum hafa verið misjafnlega nauðsynlegar eftir árferði og það þótti líka kannski misjafnlega fínt eftir landshlutum eða jafnvel efnahag manna hvort nýting á sel væri aðeins bjargráð fátæka mannsins eða eðlileg nýting og sjálfsögð eins og með aðra dýrastofna okkar. Í seinni tíð hafa kannski tískan og náttúruverndin mest að segja um hvort eða hvernig við nýtum selina.

En við getum verið sammála um að Íslendingar eru ekki lengur háðir því að nýta seli sér til lífsviðurværis. Við getum hins vegar umgengist selina og tilgangur Selasetursins er líka að ýta undir þau einstöku tækifæri sem við höfum á Vatnsnesi til að skoða selina í náttúrulegu umhverfi sínu. Selalátur eru víðast hvar aðgengileg og er mikilvægt í þessu sambandi að við stýrum umferð um þessi svæði og takmörkum rask á viðkvæmum vistkerfum.?

Sturla Böðvarsson opnar Selasetur Íslands. Sýningaraðstaðan.
Í Selasetrinu er einnig almenn upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Fjöldi fólks var viðstaddur opunina og gæddi sér á veitingum.