Samstarf til sóknar á Blönduósi

Samstarf til sóknar á Blönduósi
olof

Menningarráð Norðurlands vestra og Ferðamáladeild Háskólans á Hólum gengust fyrir ráðstefnu um menningartengda ferðaþjónustu síðastliðinn laugardag. Hún var haldinn á Blönduósi og þótti takast vel.

Samstarf til sóknar var slagorð ráðstefnunnar, sagði Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi Norðurlands vestra, í setningarræðu sinni. Markmið ráðstefnunnar væri að hvetja til aukins samstarfs og samvinnu þeirra aðila sem sinna menningar- og ferðamálum á svæðinu. Tilgangurinn væri að styrkja báða þættina og þar með atvinnulíf á Norðurlandi vestra.

Ávarp ferðamálastjóra
Ferðamálastjóri, Ólöf Ýrr Atladóttir, flutti því næst ávarp. Hún ræddi m.a. skilgreiningar á því hvað væri menningartengd ferðaþjónusta.  Þar ætti sér stað vöruþróun sem bæði væri ætlað að svara eftirspurn en einnig í sumum tilfellum ætlað að búa til nýja kosti og hafa þannig áhrif á dvalarlengd eða endanlega ferðatilhögun. Einnig varpaði hún fram spurningunni hvort menning væri yfirleitt allt það sem við gerðum eða hvort hægt væri að þrengja hugtakið. (Lesa ávarp Ólafar Ýrr - PDF)
Með Ólöfu á myndinni er Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri á Blönduósi, sem var ráðstefnustjóri.

 

Menningin og við
Hrafnhildur Víglundsdóttir fullyrti að erlendir ferðamenn vilji ekkert endilega sjá hið lokaða rými skipulagðrar menningar heldur miklu frekar kynnast hinu daglega lífi Íslendingsins, fræðast um fólkið og lífsbaráttuna, hvert  þjónustan er sótt, hvað við borðum hversdagslega og til dæmis hvað við gerum þegar eldfjöll gjósi. Í þessu sambandi benti Hrafnhildur einnig á mikilvægi svæðisbundinna  leiðsögumanna sem gætu skipt sköpun í upplifun ferðamannsins.

 

Leiksviðið
?Móttaka ferðamanna er eins og leiksvið,? sagði Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, deildarstjóri Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum. Á því verður ímyndin til, upplifunin og þar fer fram ?matreiðsla? menningarinnar.

Guðrún sagði að þetta væri eins og samspil persóna og leikenda á leiksviði og áhorfenda úti í sal. Mjög mikilvægt er að markaðssetningin sé markviss, markhópurinn þurfi að vera þekktur og leikskráin þarf að höfða til gestanna.

Til að leiksýningin næði tilætluðum árangri þarf að hafa í huga stjörnurnar fjórar en þær eru; gæði, upplifun, fagmennska og samstarf. Allt þetta þurfi að vera til staðar svo að leiksýningin virki.

Ævintýrið
Uppbygging Landnámssetursins í Borgarnesi hefur verið sem ævintýri líkust og það staðfesti Kjartan Ragnarsson framkvæmdastjóri í erindi sínu. Hann rakti uppbygginguna allt frá rissi sem gert var við eldhúsborðið heima hjá honum fram til dagsins í dag. Með samvinnu og samstarfi fjölda aðila hefði verkefnið tekist, þ.e. að koma upp skilmerkilegri sýningu á sögu landnámsins. Hins vegar hefðu leiksýningarnar verið gulrótin, dregið að gífurlegan fjölda fólks sem jafnframt hefði getað notið landnámssýningarinnar og veitingahússins.

Kjartan vék líka máli sínu að samstarfi ferðaþjónustuaðila á Vesturlandi sem hefði tekist sérlega vel og skilað góðum árangri. Þar hefðu menn lært að vera í samstarfi en þó í samkeppni.

Sagan
Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu, ræddi um undirbúning og stofnun samtakanna en þau voru stofnuð á Þingeyrum í Húnavatnssýslu í maí 2006. Í samtökunum eru 60 aðilar sem hittast reglulega og bera saman bækur sínar. Markmið samtakanna væri að auka samvinnu í kynningarmálum, gæðamálum og stuðla að aukinni fagmennsku. Starf samtakanna miðast við tímabilið frá landnámi og til ársins 1550.

Að lokum nutu ráðstefnugestir veitinga í boði Blönduóssbæjar. Ráðstefnustjóri var Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri á Blönduósi. Myndir með fréttinni tók Pétur Jónsson.


Athugasemdir