Fara í efni

Samstarf skíðasvæða á Íslandi og Skotlandi

Hlíðarfjall

Skíðasvæði á Íslandi og Skotlandi hafa gert með sér samning þess efnis að handhafar árskorta í hvoru landi um sig geta skíðað í tvo daga á hverju skíðasvæði í hinu landinu. Ekki er vitað til þess að lönd hafi gert með sér slíkan samning áður, þ.e. sem gildir fyrir öll skíðasvæði viðkomandi landa.

Samstarf um nokkurra ára skeið

Ísland og Skotland hafa átt í samstarfi á þessum vettvangi um nokkurra ára skeið og stofnuðu samtökin North Atlantic Ski Areas Association (NASAA) sem fundað hafa reglulega til að deila upplýsingum og þekkingu. Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli, segir skíðasvæði Íslendinga og Skota eiga ýmislegt sameiginlegt. Aðstæður séu áþekkar að mörgu leyti og menn geti klárlega hvor af öðrum lært. Þá hefur verið til skoðunar að fá Grænlendinga með í samstarfið og fulltrúar frá fleiri löndum hafa einnig sýnt áhuga.

Fjölbreyttir ferðamöguleikar

Meðal þess sem gerir samstarfið áhugavert er að ferðamöguleikum á milli landanna tveggja er alltaf að fjölga og er nú flogið á milli Keflavíkur og þriggja borga í Skotlandi. "Þegar við vorum að byrja að tala saman 2006-2007 var tenging við Glasgow 5 sinnum í viku en nú er staðan gerbreytt," segir Guðmundur.

Sterkara samband landanna á sviði ferðamála

Samstarf Íslands og Sotlands á sviði ferðamála hefur verið að styrkjast upp á síðkastið en á dögunum skrifaði Ferðamálastofa einmitt undir samstarfssamning við ferðamálaráð Skotlands, VisitScotland, um að deila þekkingu og upplýsingum er koma að uppbyggingu ferðaþjónustu.