Fara í efni

Samráðshópur til að bregðast við fjölmiðlaumfjöllun vegna eldgossins

Gos 2010 2
Gos 2010 2

Samráðshópur stjórnvalda og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu hittist í dag í utanríkisráðuneytinu til að ræða samstarf og aðgerðir til að bregðast við fjölmiðlaumfjöllun erlendis um Ísland vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Héðan fari réttar og yfirvegaðar upplýsingar
Markmið hópsins er að tryggja að frá Íslandi fari áfram réttar og yfirvegaðar upplýsingar um stöðu mála en nokkuð hefur borið á að umfjöllun í erlendum fjölmiðlum hafi verið í æsifréttastíl. Því er mikilvægt, ekki síst með hagsmuni ferðaþjónustunnar í huga, að halda áfram að koma upplýsingum á framfæri um að öryggi á Íslandi sé tryggt, að vel fari um þá ferðamenn sem hér eru og að íslenskt samfélag gangi að mestu sinn vanagang, þó vissulega séu menn meðvitaðir um áhrif eldgossins. 

Í hópnum eiga sæti fulltrúar iðnaðarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, Almannavarna, Ferðamálastofu, Ferðamálaráðs, Útflutningsráðs, Reykjavíkurborgar og Samtaka ferðaþjónustunnar, auk fulltrúa Icelandair og Iceland Express.

Ýmislegt þegar verið gert
Ferðamálastofa og Höfuðborgarstofa hafa þegar sett í gang verkefni til að koma á framfæri upplýsingum í gegnum samfélagslega miðla s.s. á facebook og víðar, auk þess sem Höfuðborgarstofa hefur boðið þeim ferðalöngum sem eru strandaglópar á Íslandi upp á frítt gestakort Reykjavíkur sem veitir þeim ókeypis aðgang á söfn, í sund og strætó o.fl. 

Sett hefur verið upp miðstöð fyrir erlenda fréttamenn í stjórnstöð almannavarna en fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins fer með erlend fjölmiðlasamskipti í stjórnstöðinni. Auk þess hafa almannavarnir sett upp aðstöðu fyrir erlenda blaðamenn á Hvolsvelli.