Fara í efni

Samningar um styrki til Selasetursins

Selasetur íslands
Selasetur íslands

Laugardaginn 29. apríl var skrifað undir samning milli Ferðamálastofu og Ferðamálafélags Vestur Húnavatnssýslu um 4 milljón króna styrk til uppbyggingar aðgengis fyrir alla að sýningarsvæði Selaseturs Íslands á Hvammstanga og 2,5 milljón króna styrk til uppbyggingar skoðunaraðstöðu við nokkur sellátur á Vatnsnesi.

Framkvæmdir eru langt komnar við endurbætur á gamla verslunar húsnæði Sigurðar Pálmasonar á Hvammstaga sem mun hýsa sýningaraðstöðu Selasetursins. Reiknað er með að það verði opnað seinnipart júní í sumar.

Að sögn Magnúsar Oddssonar Ferðamálastjóra, sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd Ferðamálastofu, er einkar ánægjulegt að sjá hversu mikinn metnað heimamenn leggja í verkefnið og þarna sé á ferðinni enn ein nýjungin í íslenskri ferðaþjónustu. Þetta sé dæmi um það hvernig fléttað sé saman þeim þremur grunnþáttum sem íslensk ferðaþjónusta eigi að byggjast á samkvæmt ferðamálaáætlun 2006-2015; náttúru, menningu og fagmennsku.

Á sama tíma skrifaði samgönguráðherra undir samkomulag um að ráðuneytið styrki Selasetrið um 6 milljónir króna næstu tvö árin.

Á meðfylgjandi mynd má sjá húsnæði Selaseturs Íslands. Skoða fleiri myndir sem teknar voru við undirritunina.