Samkeppni um nýjungar í ferðaþjónustu til lengri tíma

Samkeppni um nýjungar í ferðaþjónustu til lengri tíma
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Að frumkvæði Ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) og Alþjóða heilbrigðismálastofununarinnar (WHO) hefur verið sett á laggirnar samkeppni sem hefur að markmiði að fá frumkvöðla til að koma fram með nýjungar í ferðaþjónustu til lengri tíma. Um er að ræða ákall til ríkja heims að auka áherslu á hvers kyns nýsköpun og rannsóknir.

Ferðaþjónusta verði þungamiðja endurreisnar hagkerfa

Milljónir starfa eru í hættu innan ferðaþjónustu á heimvísu. Í því ljósi hefur Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna, m.a. í samráði við aðrar alþjóðastofnanir, sett stóraukinn kraft í að styðja við nýsköpun til að draga úr áhrifum Covid19 á framgang greinarinnar. Markmiðið er að ferðaþjónusta á heimvísu verði þungamiðja endurreisnar hagkerfa um allan heim. Til að svo megi verða þurfi þó aukna samvinnu alþjóðastofnana, hins opinbera og einkaaðila.

Ákall til frumkvöðla heimsins

Samkeppnin sem stofnunin hefur sett á fót í samvinnu við WHO á að gefa frumkvöðlum tækifæri til að miðla nýjum hugmyndum á sviði ferðaþjónustu, eins konar ákall stofnunarinnar til frumkvöðla heimsins. Innsendar hugmyndir þurfa að vera langt komnar m.t.t. þróunar og þær séu nothæfar í mörgum ríkjum. Nánar tiltekið eru meginskilyrðin eftirfarandi:

  • Hugmyndin feli í sér nýnæmi og eiginlega virðisauka fyrir starfsemi ferðaþjónustu
  • Hugmyndin hafi verið prófuð á tilraunastigi og fyrir liggi viðskiptaáætlun
  • Að hægt sé að byggja á eða útfæra hugmyndina í mörgum löndum

Sigurvegarar í keppninni, sem ber heitið Healing Solutions for Tourism Challenge, verður boðið að kynna hugmyndir sínar fyrir fulltrúum meira en 150 ríkisstjórna. Þá munu sigurvegararnir fá aðgang að tengslaneti UNWTO sem nær til hundruða leiðandi fyrirtækja í ferðaþjónustu um allan heim.

Umsóknafrestur er til 10. apríl 2020. Sjá nánar á slóðinni hér að neðan.

https://www.unwto.org/healing-solutions-tourism-challenge

 


Athugasemdir