Samantekt um atvik í íslenskri náttúru
Á ferðaþjónustuvikunni í liðinni viku kynnti Oddný Þóra Óladóttir, sérfræðingur á rannsóknarsviði Ferðamálastofu, samantekt* sem hún hefur unnið um atvik í íslenskri náttúru þar sem fólk hefur lent í aðstæðum sem ógna öryggi þess, valda slysum og jafnvel banaslysum. Í dag er engin samræmd atvikaskráning til fyrir slys og óhöpp í ferðaþjónustu og því um þarft verkefni að ræða.
Nær til ársins 2000
Til skoðunar voru atvik sem áttu sér stað á tímabilinu 2000 til 2024. Gögnum um atvik var safnað með tilteknum leitarorðum í gegnum vefleit, en þannig fundust t.d. upplýsingar af fréttavefmiðlum og vefjum Lögreglunnar, Landhelgisgæslunnar og Landsbjargar. Skráning náði til meginorsaka og afleiðinga atvikanna, staðsetningar þeirra, dagsetningar og bakgrunns þeirra sem tengdust þeim. Athugunin einskorðaðist að mestu við atvik þar sem björgunaraðilar komu að málum.
Alls 782 atvik skráð
Um 60% atvika áttu sér stað á Suðurlandi og Hálendinu, álíka mörg á hvoru svæði, 235 á hálendinu og 233 á Suðurlandi. Þar á eftir kom Norðurlandið með 67 atvik, Vesturlandið með 63 og Höfuðborgarsvæðið og nágrenni 58 atvik. Fæst voru atvikin á Austurlandi (34), Vestfjörðum (45) og Reykjanesi (47). Hér til hliðar má sjá orðaský yfir þá landshluta og staði þar sem atvik áttu sér stað. Hálendið og Suðurland eru þau svæði sem skera sig úr, en þegar litið er á einstaka staði stendur Fimmvörðuháls upp úr. Langjökull, gosstöðvarnar á Reykjanesi, Esjan, Gullfoss, Reykjadalur, Geysissvæðið og Reynisfjara koma einnig oft við sögu.
Meiðsli á göngu eða fjallgöngu meginorsök
Meginorsök atvika voru meiðsli á göngu eða fjallgöngu, sem námu um fimmtungi atvika. Næst algengust voru slys vegna falls í klettum, stórgrýti eða brattlendi, alls 75 talsins eða 10%. Þar á eftir komu vélsleðaslys (9%) og atvik þar sem fólk örmagnaðist á göngu eða í fjallgöngu. Í fimmta sæti voru atvik þar sem fólk villtist af leið. Þessar fimm meginorsakir stóðu samanlagt fyrir um helming allra atvika.
Dauðsföll að mestu bundin við tiltölulega afmörkuð svæði
Á korti hér til hliðar má sjá yfirlit yfir þau dauðsföll sem skráð voru. Þau voru106 talsins, 77 útlendingar, 28 Íslendingar en eitt þjóðerni var ekki skráð.
Eins og sjá má eru dauðsföllin að mestu bundin við tiltölulega afmörkuð svæði. Þarna má sjá Þingvelli, Gullfoss, Sólheimasand, Reynisfjöru, svæði i kringum gönguleiðirnar; Fimmvörðuháls og Laugaveginn, Vatnajökulssvæðið og Kirkjufell.
Opna kynningu Oddnýjar (PDF)
Upptaka af fyrirlestri
*Samantektin tekur ekki til umferðarslysa á þjóðvegum landsins og flugslysa. Auk þess nær hún ekki til aksturstengdra óhappa í ám og vötnum og skíðaslysa á skilgreindum skíðasvæðum. Upplýsingarnar byggja að stærstum hluta á fréttaflutningi fjölmiðla. Því gefur samantektin ekki nákvæma tölfræðilega mynd. 90% atvika voru á tímabilinu 2010-2024 en vera má að fyrir þann tíma hafi fréttaflutningur af atvikum ekki verið jafn algengur á netmiðlum.
Nánari upplýsingar: Oddný Þóra Óladóttir - oddny@ferdamalastofa.is