RSÍ í úrslit alþjóðlegra markaðsverðlauna

RSÍ í úrslit alþjóðlegra markaðsverðlauna
Foss

Ráðstefnuskrifstofa Íslands og Inspired By Iceland verkefnið eru komin í úrslit markaðsverðlauna ICCA-samtakanna. Úrslitakeppnin fer fram 26. október í Hyderabad á Indlandi en þeir þrír aðilar sem komast áfram þurfa að kynna sína umsókn fyrir dómnefnd og ráðstefnugestum sem velja svo sigurvergarann. Úrslitin verða svo gerð kunn daginn eftir.

ICCA eru stærstu alþjóðleg samtök aðila á ráðstefnu og hvataferðamarkaðinum. Meðlimir eru um 900 talsins í 86 löndum um allan heim. Verðlaunin sem um ræðir nefnast ?Best Marketing Award? og eru veitt til aðila sem þykir hafa staðið sig framúrskarandi vel í að koma vöru sinni eða þjónustu á framfæri. Bæði getur verið um að ræða einstök fyrirtæki eða jafnvel einstakar herferðir. Keppinautar Ráðstefnuskrifstofu Íslands í ár eru Excel-sýningarhöllin í London, sem er mörgum Íslendingum að góðu kunn eftir þátttöku á World Travel Market, og Sandon ráðstefnumiðstöðin í Suður-Afríku. 

Umsókn RSÍ tengist Inspired by Iceland verkefninu og hvernig aðildarfélagar RSÍ brugðust við þeim vanda sem eldgosið í Eyjafjallajökli skapaði. Þetta er því í raun viðurkenning á frábæru starfi aðildarfélaga RSÍ og fagmennsku þeirra sem tryggði að höggið var minna en upphaflega stefndi í sem og hvernig Inspired by Iceland verkefnið studdi við allar gerðir ferðamennsku til landsins.

Anna Valdimarsdóttir, verkefnastjóri Ráðstefnuskrifstofu Íslands, segir það eitt að komast í úrslit vera mikla viðurkenningu. Ljóst sé að óháð endanlegum úrslitum hafi útnefningin þegar vakið verðskuldaða athygli innan greinarinnar. ?Það er afar gott að fá þessa auglýsingu núna þegar styttist í að Harpa verði opnuð og allt hjálpar þetta við að koma Íslandi betur á kortið í þessum efnum,? segir Anna.


Athugasemdir