Fara í efni

Vaxandi bjartsýni meðal Evrópubúa að ferðast

Forsíða skýrslunnar.
Forsíða skýrslunnar.

Um 56% Evrópubúa hafa áform um ferðalög næstu sex mánuðina eða fyrir ágústlok skv. könnun sem Evrópska ferðamálaráðið kynnti á vefsíðu ráðsins í vikunni. Könnunin er nú framkvæmd í sjötta sinn meðal íbúa helstu ferðamannaþjóða Evrópu¹. Löngun til að ferðast hefur aldrei mælst svo mikil frá því könnunin fór af stað í ágústmánuði árið 2020.  

Niðurstöðurnar sýna jafnframt: 

  • að með tilkomu bóluefnis sé nú einn af tveimur Evrópubúum bjartsýnn og öruggur með að ferðast næsta hálfa árið. Eldri aldurshópar, 45 og eldri eru bjartsýnni (51%) en þeir sem yngri eru (45%). 

  • að 22,1% Evrópubúa hafa áform um að ferðast í maí og júní og 35,9% síðari hluta sumars. 

  • að 41,3% stefna á að ferðast til annars Evrópuríkis næsta hálfa árið og 36,1% innanlands.  

  • að 1-2% ætla sína næstu Evrópuferð til Íslands. Þau lönd sem flestir hafa hins vegar áform um að ferðast til eru Spánn (10,4%), Ítalía (9,0%); Frakkland (7,0%), Grikkland (6,2%) og Þýskaland (5,2%). 

  • að langflest ferðalög (65,8%) næsta hálfa árið verða farin í tengslum við frí. Flestir hafa áform um sólarlandaferð (20,9%) eða náttúrutengt ferðalag (14,8%). 

  • að þrír af hverjum fjórum ætla að nýta næsta ferðalag til samverustunda með fjölskyldu eða maka.  

  • að þeir þættir sem skipta mestu máli þessa dagana þegar kemur að ákvarðanatöku um Evrópuferð eru; hversu vel áfangastaðir hafa náð utan um faraldurinn (10,4%), sveigjanleikinn til afpöntunar (10,3%) og Covid-19 prófanir fyrir ferð (10%).  

  • að Evrópubúar, hafa líkt og niðurstöður fyrri kannana gefa til kynna, áhyggjur af; að þurfa að sæta sóttkví meðan á ferðalaginu stendur (15,6%), fjölgun Covid-19 tilfella á áfangastað (14,1%), að verða veikur á áfangastað (12,0%), takmörkunum í gildi á áfangastað (9,6%), ferðatakmörkunum til og frá heimili (9,5%) og að verða veikir á ferðalaginu (9,4%). Færri nefna afbókunarskilmála (7,1%) og öryggisráðstafanir í tengslum við samgöngur og gistingu (5,8%). 

  • að með hliðsjón af öryggi og heilsu þá óttast menn mest á ferðalögum flugferðir (16,8%), barferðir og veitingahús (13,2%), almenningssamgöngur og leigubíla á áfangastað (12,7%), gistingu (11,1%), almenningssvæði (11,0%) og ýmiss konar ferðir og afþreyingu (10,8%)  

Skýrsluhöfundar beina því til ferðamálayfirvalda að gefa skýr skilaboð um hvað er opið á hverjum áfangastað og hvaða takmarkanir eru í gildi sem snúa að ferðafólki. Samræmd og gagnsæ skilaboð séu lykillinn að því að stýra væntingum ferðamanna og byggja upp traust. Mikilvægt sé að þróa og miðla skýrum Covid-19 sóttvarnarreglum. Beita megi öðruvísi og skemmtilegri nálgunum í auglýsingum og athöfnum til að létta á andrúmsloftinu og uppræta áhyggjur manna af því að heimsækja áfangastaði. Ábyrg ferðamennska skuli vera í fyrirrúmi þegar ferðaþjónustan fer aftur af stað.   

Könnunin í heild:

Monitoring sentiment for domestic and Intra-European travel  - Wave 6 | 04/21

¹Könnunin var gerð dagana 5.-19. febrúar 2021 og kemur í framhaldi af sambærilegum könnunum gerðar; a) 18. desember 2020 til 7. Janúar 2021, b) 20. nóvember til 3. desember 2020, c) 19. október - 6. nóvember 2020, d) 21. september - 9. október 2020 og f) 27. ágúst - 15. september 2020.  

Könnunin er liður í vöktun á því hvaða áhrif COVID-19 er að hafa á ferðaáætlanir og ferðalöngun Evrópubúa, hvers konar ferðalög Evrópubúar vilja fara, til hvaða áfangastaða, hvenær næstu frí verða tekin og hvort þeir óttist að ferðast. 

²Könnunin náði til  íbúa í Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Belgíu, Sviss, Spáni, Póllandi og Austurríki og var bundin við þátttakendur sem höfðu farið í a.m.k. tvö ferðalög á árinu 2019 þar sem var gist yfir nótt.