Rekstur flugfélaga ? áskoranir og tækifæri

Rekstur flugfélaga ? áskoranir og tækifæri
Flugfarþegar

Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins, stendur fyrir ráðstefnu um rekstur flugfélaga, áskoranir og tækifæri föstudaginn 8. maí kl. 13:00-17:00 í hátíðarsal Tækniskólans v/Háteigsveg.

Rekstrarumhverfi flugfélaga í dag er þannig háttað að áskoranirnar eru margar, fjölbreytilegar og verða til með afar skjótum hætti. Eldsneytisverð hefur lengi verið hátt og samdráttur allsráðandi í efnahagslægð þeirri sem gengur yfir heimsbyggðina. Hugsanlegur inflúensufaraldur er nú enn eitt áfallið sem mun hafa áhrif á flugrekstur um heim allan. Áskoranirnar eru sannarlega til staðar en tækifærin líka, segir í tilkynningu.

Tveir undirskólar Tækniskólans, Endurmenntunarskólinn og Flugskóli Íslands hafa safnað saman forsvarsmönnum í flugrekstri á Íslandi, flugmálastjóra og John Wensveen Ph.D. sérfræðingi í rekstri flugfélaga og deildarforseta Flugmálaskólans við Dowling College í New York til þess að fjalla um rekstur flugfélaga frá þessu sjónarhorni og leggja til umræðunnar hugmyndir um framtíðina í þessum geira. Ofangreindum skólum er málið skylt því bæði Endurmenntunarskólinn og Flugskóli Íslands bjóða upp á nám í flugtengdum greinum. Í Endurmenntunarskólanum er kennd flugrekstrarfræði á háskólastigi og Flugskóli Íslands býður upp á alla flugkennslu, þar með talið einkaflug og atvinnuflug, þyrluflug og flugumferðarstjórn. Ennfremur sér Flugskóli Íslands um sí- og endurmenntun áhafna flugvéla, þ.e. flumanna og flugliða. Nánari upplýsingar á www.tskoli.is   

Ráðstefnugjald er 4000 kr. Skráning fer fram í s. 514 9000 eða á netfangið ave@tskoli.is


Athugasemdir