Fara í efni

Rekstrarhandbók fyrir hestaleigur og hestaferðafyrirtæki

hestaferð 150 pix
hestaferð 150 pix

Ferðamáladeild Háskólans á Hólum hefur gefið út bókina Stjórnun og rekstur í ferðaþjónustu ? hestaleigur og hestaferðafyrirtæki. Mun þetta vera fyrsta rit sinnar tegundar hérlendis.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar verður efnt til útgáfukynningar mánudaginn 19. febrúar nk. í aðstöðu Íshesta að Sörlaskeiði 26, í Hafnarfirði kl. 15.30.

Í frétt frá Hólaskóla segir að mikilvægi fagmennsku í hestaferðaþjónustu vaxi stöðugt, enda sé talið að um 50 þúsund erlendir gestir fari árlega á hestbak á Íslandi. Útgáfan er liður í viðamiklu rannsóknar- og þróunarverkefni sem staðið hefur yfir um árabil við ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Efni bókarinnar byggir meðal annars á niðurstöðum rannsókna meðal rekstraraðila í greininni. Námskeið fyrir rekstraraðila og starfsmenn í hestaferðaþjónustu eru fyrirhuguð í framhaldi af útgáfu bókarinnar. Bókin er rituð af Ingibjörgu Sigurðardóttur (inga@holar.is) viðskiptafræðingi við ferðamáladeild, en hún hefur menntun og starfsreynslu á sviði fyrirtækjarekstrar, ferðamennsku og landbúnaðar og er félagi í Félagi tamningamanna. Samtök ferðaþjónustunnar eiga aðild að verkefninu. Í skýrslu sem gerð var fyrir samtökin árið 2005 og bar heitið Þarfagreining fyrir fræðslu og menntun í ferðaþjónustu kom berlega í ljós að mikil þörf er á að efla menntun og fræðslu innan ferðaþjónustunnar og er hér meðal annars brugðist við því.