Fara í efni

Reiðleiðir á Netið

Landssamband hestamannafélaga, Vegagerðin og Landmælingar Íslands hafa undirritað samstarfssamning um kortlagningu reiðleiða á Íslandi. Verða þær jafnframt aðgengilegar á Internetinu.

Samningsaðilar hafa komið sér saman um að hefja söfnun hnitsettra upplýsinga um reiðleiðir á öllu landinu og gera þau gögn aðgengileg almenningi. Verkaskiptingin er þannig að Landssamband hestamannafélaga sér um söfnun gagna um allt land í samvinnu við hestamenn og hestamannafélögin í landinu, Landmælingar Íslands vinna úr og koma gögnum í landfræðilegt upplýsingakerfi og á Netið. Vegagerðin vinnur að stöðlun skráningaratriða og sér um að veita upplýsingar um viðurkenndar reiðleiðir. Samstarf þessara aðila við söfnun upplýsinga um reiðleiðir er ætlað að tryggja samræmd vinnubrögð, koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja aðgang samfélagsins að því hvar reiðleiðir er að finna á landinu og í hvaða ástandi þær eru.

Í gagnið fyrir 1. júní
Landmælingar Íslands munu á samningstímanum byggja upp gagnagrunn um reiðleiðir í tengslum við IS 50V stafræna kortagrunninn og verður notað landfræðilegt upplýsingakerfi til að skipuleggja og veita aðgang að ferlum reiðleiðanna. Upplýsingar um reiðleiðirnar verða aðgengilegar á vef Landmælinga Íslands og vef Landssambands hestamannafélaga. Stefnt er að því að fyrstu 50 reiðleiðirnar verði komnar í gagnagrunn og birtar á vefnum fyrir 1. júní 2004 og í lok árs verði á vefinn komnar upplýsingar um 150 reiðleiðir.