Fara í efni

„Rauður listi“ Umhverfisstofunar birtur

Geysir. ©arctic-images.com
Geysir. ©arctic-images.com

Umhverfisstofnun gefur árlega út skýrslu um ástand friðlýstra svæða á Íslandi. Á tveggja ára fresti er svo gefinn út svokallaður „rauður listi“ sem byggður er á ástandsskýrslunni.

Svæði í hættu

Eitt af markmiðum rauða listans er að forgangsraða kröftum og fjármunum til verndunar. Svæðin á listanum flokkast annars vegar á rauðan lista, en þar eru þau svæði sem eru undir miklu álagi sem bregðast þarf við strax. Hins vegar eru á appelsínugulum lista þau svæði sem eru undir töluverðu álagi og fylgjast þarf vel með og bregðast við eftir atvikum.

Fækkar á rauða listanum

Þróun listans frá 2010 hefur verið þannig að svæðum á rauða listanum hefur fækkað en svæðum á appelsínugula listanum hefur fjölgað. Svæði á rauðum lista voru 10 árið 2010 en eru fimm í ár. Er það fyrst og fremst vegna þess að verndaraðgerðir hafa borið árangur og svæði færst niður á appelsínugula listann.

Fimms svæði eru nú á raum lista:

-Friðland að Fjallabaki
-Geysir
-Helgustaðanáma
-Reykjanesfólkvangur
-Verndarsvæði Mývatns og Laxár

Framkvæmdir 2014

Sumarið 2014 er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum og verndarráðstöfunum. Vonast er til að þær aðgerðir muni leiða til þess að Helgustaðanáma fari af rauða listanum. Sömuleiðis standa vonir til að sex svæði falli út af appelsínugula listanum eftir framkvæmdir sumarið 2014: Dynjandi, Dyrhólaey, Gullfoss, Teigarhorn, Skútustaðagígar og Surtarbrandsgil.

Breytingar frá síðasta lista

Helstu breytingar frá því að listinn var gefinn út síðast eru að eitt svæði færist af rauðum lista yfir á appelsínugulan og er það Laugarás. Þar hafa aðgerðir Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar hvað varðar stýringu, upprætingu framandi tegunda og fræðslu bætt stöðu mála umtalsvert. Eitt svæði kemur aftur inn á appelsínugula listann og er það Dynjandi. Eitt svæði sem ekki hefur áður verið á lista kemur inn á appelsínugula listann, Ströndin við Stapa og Hellna. Hveravellir sem voru á appelsínugulum lista í fyrra falla út en þar var ráðist í miklar framkvæmdir til að styrkja innviði. Önnur svæði eru óbreytt á milli ára og eru nú fimm svæði á rauðum lista og sextán á appelsínugulum lista.

Friðlýst svæði á Íslandi eru 113 talsins í maí 2014 en umfang þeirra, eðli og ástand er eins misjafnt og svæðin eru mörg.

Nánar á vef Umhverfisstofnunar