Rannsóknarverkefni með Worcester Polytechnic Institute
Ferðamálastofa tekur þátt í margvíslegum verkefnum með ólíkum aðilum. Eitt slíkt átti sér stað síðastliðið sumar í tengslum við nemendur úr bandaríska háskólanum Worcester Polytechnic Institute, sem er steinsnar frá Boston. Þar er lögð rík áhersla á nám utan hefðbundinnar kennslustofu og hafa nemendahópar komið hingað til lands frá árinu 2018 til að vinna að ýmiss konar verkefnum í nánu sambandi við íslenska aðila.
Afla dýpri þekkingar á væntingum og upplifun ferðamanna á Íslandi
Ríflega 20 nemendur skólans voru hér á landi í sjö vikur frá ágúst fram í október við ýmis rannsóknarverkefni. Fjögur þeirra unnu rannsókn í samstarfi við okkur hjá Ferðamálastofu, sem miðaði að því afla dýpri þekkingar á væntingum og upplifun ferðamanna á Íslandi. Framlag stofnunarinnar fólst einkum í að veita leiðsögn um verkefnaval og framkvæmd rannsóknarinnar. Nemendur fóru á nokkra staði og spurðu alls 300 ferðamenn spjörunum úr um væntingar þeirra og upplifun í Íslandsferðinni. Fyrir valinu urðu meðal annar staðir eins og Sólfarið, Hallgrímskirkja og Esjurætur.
Flestir töldu Ísland hafa staðið undir eða farið fram úr væntingum
Rannsókn bandarísku nemanna sýndi að flestir ferðamenn töldu Ísland hafa staðið undir eða farið fram úr væntingum sínum, einkum vegna náttúrunnar og upplifana sem þeir töldu einstakar. Á sama tíma kom í ljós að um þriðjungur upplifði ákveðin vonbrigði sem tengdust helst verði, gjaldtöku á áfangastöðum og álagi á vinsælum svæðum. Þessar niðurstöður varpa skýru ljósi á hvað ferðamenn meta mest og hvar helstu áskoranir blasa við, og geta þannig stutt við áframhaldandi umræðu og verkefnavinnu innan málaflokksins. Rannsóknin er kærkomin viðbót við þá þekkingu sem Ferðamálastofa hefur aflað með könnunum.
Kunnum við nemendahópnum og leiðbeinendum þeirra hinar bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf.
Hér má sjá nemendurna fjóra njóta íslenskrar afþreyingar í frítíma sínum milli rannsóknardaga . Evan, Jade, Sydney og Stephanie.

