Fara í efni

Ráðstefna tileinkuð fræðslu um náttúrutengda ferðamennsku

Logo
Logo

Alþjóðleg, þverfagleg ráðstefna undir yfirskriftinni „Practicing Nature-Based Tourism“ verður haldin í tengslum við sýninguna Án Áfangastaðar/Without Destination í Listasafni Reykjavíkur helgina 5.-6. febrúar 2011. 

Ráðstefnan er tileinkuð fræðslu um náttúrutengda ferðamennsku og umræðu um Ísland sem áfangastað ferðamanna. Hún er hugsuð sem tækifæri fyrir innlenda og erlenda rannsakendur að koma niðurstöðum sínum á framfæri til samfélagsins.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar eru Lucy R. Lippard, Galisteo, New Mexico, margverðlaunaður rithöfundur, sýningastjóri og samfélagsrýnir, og fræðimennirnir Próf. Paul Cloke, landfræðingur hjá University of Exeter og Dr. Tim Edensor, landfræðingur hjá Manchester Metropolitan University, sem hvorir um sig eru forkólfar í rannsóknum á ferðamennsku. Auk þeirra má t.d. nefna Päivi Lappalainen verkefnastjóra á klasaverkefni Finna sem, eins og Íslendingar, byggja ferðaþjónustu sína á aðdráttarafli náttúrunnar og stefna að því að gera Finnland að einum aðaláfangastað Evrópu árið 2020.

Á eftir þéttskipaðri fræðsludagskrá sem spannar einn og hálfan dag verða pallborðsumræður þar sem rætt verður um þær áskoranir sem blasa við ferðamannalandinu Íslandi – hvar það stendur og hvert það stefnir nú á tímum aukins ferðamannastraums og álags.  Pallborðið verður skipað helstu ráðamönnum íslensku ferðaþjónustunnar ásamt fagfólki í greininni og sérfræðingum á þessu sviði. Ráðstefnugestir verða hvattir til að taka þátt í umræðunum.

Ráðstefnan er öllum opin. Fólk sem starfar við ferðaþjónustu eða þarf að taka mikilvægar ákvarðanir atvinnugreininni til handa er eindregið hvatt til að mæta. Framsögumenn hafa verið beðnir um að tala á almennu máli. Fræðsludagskráin fer fram á ensku en umræðufundurinn á íslensku.

Þátttöku skal tilkynna fyrir kl. 13, föstudaginn 4. febrúar 2011, með því að senda nafn og heimilisfang á netfangið without.destination.conference@gmail.com Ekkert þátttökugjald er á ráðstefnuna.

Þetta er ráðstefna sem enginn sem hefur áhuga á íslenskri ferðaþjónustu ætti að missa af!

Nánari upplýsingar og dagskrá má finna á vef Listasafns Reykjavíkur:
http://www.listasafnreykjavikur.is/desktopdefault.aspx/tabid-2182/3368_read-1723/date-1625/#radstefna