Fara í efni

Ráðherra frestar gjalddaga fyrstu afborgana úr Ferðaábyrgðasjóði

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur tekið ákvörðun um að  fresta gjalddaga fyrstu afborgana lána úr Ferðaábyrgðasjóði enn um sinn, eða til 1. desember 2022. Jafnframt er til skoðunar í ráðuneytinu að lengja lánstíma lánanna.

Hlutverk sjóðsins, sem er í vörslu Ferðamálastofu, er að veita ferðaskrifstofum lán til að endurgreiða ferðamönnum greiðslur vegna ferða sem var aflýst eða þær afpantaðar á tímabilinu 12. mars til og með 31. júlí 2020. Umfang lánveitinga sjóðsins nemur um 3,2 milljörðum króna.

Í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir að ráðuneytið hafi í sumar fylgst náið með þróun og horfum í rekstri ferðaskrifstofa. Þrátt fyrir aukningu í sölu ferða í sumar og þrátt fyrir að sú aukning myndi halda sér út árið, sem ekki er víst að verði, er töluvert í að umsvif og lausafjárstaða ferðaskrifstofa verði þannig að þeim verði kleift að standa straum af umtalsverðum afborgunum af lánum frá Ferðaábyrgðasjóði. Að undanförnu hafa aðstæður í ferðaþjónustu breyst hratt m.a. vegna breytinga á reglum á landamærum fyrir Íslendinga og þá sem hafa tengsl við landið sem nú þurfa að framvísa neikvæðu PCR-prófi við byrðingu í flugfar erlendis. Þessar breytingar hafa dregið úr ferðavilja Íslendinga erlendis og dregið hefur úr bókunum ferðaskrifstofa. Í ljósi þeirrar óvissu í rekstri ferðaskrifstofa er það því samdóma mat aðila að íslenskar ferðaskrifstofur muni ekki geta greitt af lánum frá Ferðaábyrgðasjóði á gjalddaga 1. desember nk. nema í undantekningartilvikum. Því hefur ráðherra ákveðið að fresta gjalddaga fyrstu afborgana lána úr sjóðnum til 1. desember 2022. Það er jafnframt til skoðunar í ráðuneytinu að lengja lánstíma lánanna.

„Í ljósi aðstæðna er það mat mitt að hagsmunum ríkissjóðs og íslenskrar ferðaþjónustu sé best borgið með því að gjalddaga fyrstu afborgunar verði frestað. Ferðaskrifstofum mun með þeim hætti gefast aukið svigrúm til að aðlaga rekstur sinn og bæta lausafjárstöðu sína,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

 Reglugerð sem staðfestir breytinguna verður gefin út innan skamms.