Fara í efni

PHOENIX 4.0: Opið fyrir umsóknir um styrki

PHOENIX 4.0: Opið fyrir umsóknir um styrki

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki í nýju samstarfsverkefni sem ber heitið PHOENIX 4.0 og miðar að því að styðja við þróun, nýsköpun og sjálfbærni innan íslenskrar ferðaþjónustu. Verkefnið er leitt af Íslenska ferðaklasanum  ætlað litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem vilja vinna að raunhæfum lausnum í samstarfi við önnur fyrirtæki og sérfræðiaðila.

PHOENIX 4.0 er nýjasta dæmið um alþjóðlegt verkefni sem Íslenski ferðaklasinn hefur komið að á undanförnum árum, þar sem áhersla hefur verið lögð á að veita fyrirtækjum í ferðaþjónustu og tengdum greinum fjárhagslegan stuðning til að bæta rekstur, auka seiglu, efla sjálfbærni og innleiða nýja tækni. Á síðasta áratug hafa slík verkefni náð til hundruða fyrirtækja hérlendis.

 

Hafi skýrt hagnýtt gildi í daglegum rekstri

Í PHOENIX 4.0 er lögð áhersla á verkefni sem hafa skýrt hagnýtt gildi í daglegum rekstri, fremur en hugmyndir sem ekki liggur fyrir hvernig verði hrint í framkvæmd. Reynslan sýnir að þegar ólík þekkingarsvið koma saman, svo sem ferðaþjónusta, tækni, hönnun, sjálfbærni og skapandi greinar, skapast oft skilvirkari lausnir með minni áhættu.

Samstarfsverkefni sem valin verða til þátttöku geta fengið allt að 25.000 evrur í styrk. Verkefnin standa yfir í allt að níu mánuði og ekki er gerð krafa um mótframlag, sem veitir fyrirtækjum svigrúm til að prófa nýjar leiðir, þróa lausnir og innleiða breytingar sem ella hefðu ekki orðið að veruleika.

Verkefnið er einkum ætlað fyrirtækjum sem vilja vinna markvisst að þróun í samstarfi við aðra. Umsækjendur eru hvattir til að skilgreina skýrt hvaða áskoranir þeir standa frammi fyrir, hvaða aðilar eigi erindi í samstarfið og hvað sé raunhæft að ná fram innan tiltekins tímaramma.

Nánari upplýsingar um umsóknarferlið eru aðgengilegar á vef Íslenska ferðaklasans. Þá verður haldinn rafrænn upplýsingafundur á Teams þann 5. febrúar næstkomandi.