Fara í efni

Nýtt ferðakort fyrir Vesturland og Suðurland

FerdakortSudurland
FerdakortSudurland

Landmælingar Íslands hafa nú gefið út ferðakort númer tvö í flokki nýrra ferðakorta í mælikvarða 1:250.000 og heitir það Vesturland og Suðurland. Kortið sýnir svæðið frá Snæfellsnesi suður um Reykjanes, austur að Skaftafelli og einnig drjúgan hluta hálendisins.

Meðal nýjunga má nefna að við helstu ferðamannastaði eru þjónustutákn svo auðveldara sé fyrir ferðamenn að velja sér áfangastað með tilliti til þeirrar þjónustu sem sóst er eftir. Kortablaðið er stórt (86x136 cm) og í broti sem á að henta vel á ferðalögum. Kortið er unnið með stafrænum hætti sem gerir endurskoðun og útgáfu auðveldari. Á því eru yfir 6.000 örnefni, þar eru allar almennar staðfræðiupplýsingar, hæðarskygging og 50 metra hæðarlínubil. Þar er meðal annars að finna vegi, veganúmer, vegalengdir og bensínafgreiðslur. Merkingar eru fyrir helstu staði þar sem þjónusta er í boði fyrir ferðamenn, s.s. gisting, tjaldstæði, sundlaugar, golfvellir og svo framvegis. Á kortinu er ennfremur að finna upplýsingar um söfn, friðlýstar minjar, upplýsingamiðstöðvar, hringsjár, bæi í byggð, eyðibýli og rústir svo eitthvað sé nefnt. Skýringar eru á ensku, frönsku og þýsku, auk íslensku.

Nýtt 500.000 kort
Þá hafa Landmælingar gefið út nýtt heildarkort af Íslandi í mælikvarðanum 1:500.000 með hæðarskyggingu og þjónustutáknum. Hér er um að ræða mikið breytta útgáfa af þessu vinsæla korti sem kom fyrst út með eldra útliti fyrir rúmum tveimur áratugum. Það kort var endurskoðað og endurútgefið með reglulegu millibili og er söluhæsta Íslandskortið til þessa, en það hefur á þessum tíma selst í nokkuð á þriðja hundrað þúsund eintökum. Á kortinu eru sem fyrr nýjustu upplýsingar um vegi landsins, vegalengdir og veganúmer, auk mikilvægra upplýsinga um ferðaþjónustu, s.s. bensínafgreiðslur, gististaði, söfn, sundlaugar, golfvelli og fleira. Kortinu fylgir nafnaskrá með yfir 3000 örnefnum. Skýringar eru á ensku, frönsku og þýsku, auk íslensku.