Fara í efni

Nýsköpunarverðlaun SAF 2014 - Auglýst eftir tilnefningum

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun samtakanna fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Kveðið er á um að heimilt sé að veita verðlaun vegna nýsköpunar allt að 300.000 krónum fyrir verkefnið.

Í stefnumótun SAF kemur m.a. fram að stefnt skuli að því að nýsköpun og fagmennska innan greinarinnar tryggi arðsemi allt árið enda byggi ferðaþjónustan á sterkri ímynd, gæðum, þekkingu og traustum innviðum. Auk þess segir í stefnu SAF að landið allt verði kynnt til eflingar ferðaþjónustu og að náttúra, mannlíf og menning landsins gegni lykilhlutverki. Hvatt er til aukinnar samvinnu innan greinarinnar til að styrkja enn frekar innviði og efla markaðssetningu landsins sem heildar. Stjórn sjóðsins mun m.a. taka tillit til þessara þátta þegar farið verður yfir tilnefningarnar. Nýsköpunarverðlaunin verða afhent á stofndegi SAF sem er 11. nóvember en það verður auglýst síðar.

Vinsamlegast sendið tilnefningar ásamt rökstuðningi til skrifstofu SAF á netfangið saf@saf.is eða með því að senda póst í Borgartún 35, 105 Reykjavík fyrir 26. október nk.