Fara í efni

Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2021

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Icelandic Lava Show hlýtur Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2021. Samtök ferðaþjónustunnar afhenda verðlaunin á afmælisdegi samtakanna, 11. nóvember ár hvert. Eliza Reid, forsetafrú, afhenti Icelandic Lava Show verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær.

SAF afhenda Nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í átjánda skipti sem SAF veita nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar en þetta árið bárust 14 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin.

Einstök sýning

Icelandic Lava Show er einstök sýning á heimsvísu þar sem hraun frá Kötlugosinu 1918 er brætt upp í 1100 gráðu hita og því hellt inn í sýningarsal fullum af fólki. Áhorfendur fá þannig tækifæri til að komast í návígi við bráðið hraun með öruggum hætti. Upplifunin er sannkölluð veisla fyrir skynfærin. Að sjá rauðglóandi hraunið renna inn í salinn, heyra það snarka, finna lyktina en umfram allt skynja ótrúlegan hitann sem stafar frá hrauninu er hreint magnað.

Sýningin er sú eina sinnar tegundar í heiminum og hefur fengið gífurlegt lof frá vel yfir 1000 sýningargestum eins og sjá má á jákvæðim ummælum á einkunnasíðum á borð við TripAdvisor og Google. Einróma lof og hverrar krónu virði. Sjón er sögu ríkari.

 

Nýsköpunarviðurkenningar

Auk Icelandic Lava Show hlutu Markaðsstofa Norðurlands, vegna Arctic Coast Way, og VÖK Baths á Egilsstöðum nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar árið 2021.

Norðurstrandarleið, eða Arctic Coast Way, var opnuð sumarið 2019, en um er að ræða áhugavert markaðsverkefni í ferðaþjónustu sem leitt hefur verið af Markaðsstofu Norðurlands. Óhætt er að segja að Arctic Coast Way hafi skapað nýtt aðdráttarafl á Norðurlandi og kynnt landshlutann sem einstakan áfangastað. Ferðavefurinn Lonley Planet valdi t.d. Arctic Coast Way einn af 10 áhugaverðustu áfangastöðunum í Evrópu árið 2019.

Vök Baths eru heitar laugar sem staðsettar eru á bakka Urriðavatns við Egilsstaði á Austurlandi. Böðin samanstanda af tveimur fljótandi sjóndeildarlaugum, einu sinnar tegundar á Íslandi, tveimur heitum laugum á landi, vaðlaug, eimbaði, köldum úða göngum og veitingastaðnum Vök Bistro.

Ferðamálastofa óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju.

Meira má lesa um málið á heimasíðu Samtaka ferðaþjónustunnar með því að smella hér.

Myndirnar eru frá afhendingu verðlaunanna. Á fyrri myndinni eru fulltrúar Icelandic Lava Show, Ragnhildur Ágústsdóttir, Hildur Árnadóttir og Ragnar Þór Guðgeirsson ásamt Elizu Reid forsetafrú og Bjarnheiði Hallsdóttur, formanni Samtaka ferðaþjónustunnar. Á seinni myndinni eru fulltrúar Markaðsstofu Norðurlands þau Halldór Óli Kjartansson, Arnheiður Jóhannsdóttir og Katrín Harðardóttir ásamt Elizu Reid forsetafrú og Bjarnheiði Hallsdóttur, formanni Samtaka ferðaþjónustunnar.