Fara í efni

Nýr vefur Ferðamálastofu

Nýr vefur Ferðamálastofu

Í dag fór í loftið ný útgáfa af vef Ferðamálastofu, ferdamalastofa.is. Með endurgerð hans er markmiðið að veita atvinnugreininni, og öðrum sem vefurinn á að nýtast, enn betri þjónustu en áður.

Hannaður samkvæmt nýjustu kröfum

Samið var við Stefnu hugbúnaðarhús um vefsíðugerð,  vefhönnun og tæknilega útfærslu. Hönnunin tekur mið af nýjustu kröfum sem gerðar eru til vefsvæða, svo sem aðgengismálum og gagnvirkri tengingu við samfélagsvefi. Þá er vefurinn skalanlegur (e. responsive) sem merkir að hann aðlagast sjálfkrafa skjástærð vefnotenda í hvert sinn, svo sem farsíma eða spjaldtölvu.

Vefinn prýða myndir sem teknar eru af einum fremsta ljósmyndara landsins, Ragnari Th. Sigurðssyni.

Þjóni greininni betur

Þótt nýtt útlit og hönnun sé áberandi felst þó mesta breytingin í endurgerð vefsins efnislega. Er markmiðið sem fyrr segir að veita atvinnugreininni, og öðrum sem vefurinn á að nýtast, sem besta þjónustu. Á vefnum er að finna margháttaðan fróðleik um íslenska ferðaþjónustu og starfsemi Ferðamálastofu, svo sem tölfræði, fræðslurit og aðrar útgáfur, lagaumhverfi og leyfismál, umhverfismál, gæðamál og markaðsmál innanlands.

Fréttir og viðburðir

Áfram verður kappkostað að halda féttaþætti vefsins öflugum og að koma á framfæri öllu því sem er á döfinni hjá atvinnugreininni, svo sem fundum, ráðstefnum, námskeiðum o.fl. Vefstjóri er Halldór Arinbjarnarson.

Mynd:
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri opnaði nýja vefinn í dag með Halldóri Arinbjarnarsyni, upplýsingastjóra Ferðamálastofu.