Fara í efni

Nýr upplýsinga- og fræðsluvefur fyrir stjórnendur og starfsfólk í ferðaþjónustu

Good to know“ er nýr upplýsinga- og fræðsluvefur fyrir stjórnendur og starfsfólk í ferðaþjónustu, einkum framlínustarfsfólk. Vefurinn er bæði á íslensku og ensku og nýtist þannig jafnt Íslendingum og þeim sem eru af erlendu bergi brotnir.

Góð upplýsingagjöf mikilvæg

Eitt af því sem framlínustarfsfólk gerir dags daglega er að veita upplýsingar til ferðamanna og svara margvíslegum spurningum. Hugsunin er að vefurinn sé gagnlegur þeim sem eru t.d. að hefja störf í ferðaþjónustu og þurfa að hafa innsýn í svo margt. Má í því sambandi t.d. nefna veður og færð, öryggismál,fróðleiksmola um land og þjóð, ýmislegt um ferðaþjónustuna hér á landi og margt fleira. Með því að kynna sér efnið á vefnum getur starfsfólk aflað sér ákveðinnar grunnþekkingar sem hjálpar þeim síðan að veita ferðamönnum góðar og áreiðanlegar upplýsingar sem aftur ýtir undir jákvæða og örugga upplifun ferðamanna á áfangastaðnum og ferðalaginu í heild.

Upplýsingarnar allar á einum stað

Þegar farið var af stað með verkefnið var vitað að efnið sem er til umfjöllunar og sett fram á Goodtoknow væri þegar til staðar hjá hinum ýmsu aðilum. Nú er hinsvegar  búið að safna saman þessum helstu upplýsingum um áfangastaðinn Ísland og setja þær á einn stað á stuttan, hnitmiðaðan og myndrænan hátt. Mjög víða þar sem hægt er, er notendum síðan vísað áfram á viðeigandi vefi til að afla sér frekari upplýsinga um ákveðin mál.

Samvinnuverkefni Ferðamálastofu og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar

Hugmyndin að verkefninu og grunnefnistök koma frá Ferðamálastofu en frekari útfærsla, þróun og vinnsla efnisins var í höndum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem jafnframt hýsir vefinn. Útlit og hönnun var í umsjá Steinþórs Rafns Matthíassonar hjá auglýsingastofunni Konsept.