Fara í efni

Nýr sjóður til uppbyggingar ferðamannastaða

Ferðafólk í Þórsmörk
Ferðafólk í Þórsmörk

Ríkisstjórnin fjallaði í liðinni viku um tillögur iðnaðarráðherra um margvíslegar aðgerðir í atvinnu- og nýsköpunarmálum. Meðal aðgerða sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að hrinda í framkvæmd er að vinnuhópur um aðkomu lífeyrissjóða að stórframkvæmdum útfæri stofnun sérstaks ferðamálasjóðs.

Í hann renni þau gjöld sem lögð verða á ferðamenn og eiga að standa undir uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða á Íslandi, auk annarra brýnna verkefna í þágu ferðaþjónustu. Markmiðið er að þegar á þessu ári verði tiltækar á bilinu 500 til 750 milljónir króna til slíkra uppbyggingarstyrkja. Hugmyndin er sú að tryggja greininni þannig nýjan tekjustofn, ferðamálagjald en nefnd á vegum fjármálaráðuneytis með aðkomu aðila í ferðaþjónustu hefur það verkefni að vinna að nánari útfærslu þess. Stefnt er að því að iðnaðarráðherra leggi fram frumvarp um nýja ferðamálasjóðinn strax í vor. Fram hefur komið að sjóðurinn verður að líkindum vistaður hjá Ferðamálastofu sem hafi umsjón með samningagerð og eftirfylgni en fjölskipuð nefnd fagfólks meti umsóknir.