Nýr kynningarvefur frá Markaðsstofum landshlutanna

Nýr kynningarvefur frá Markaðsstofum landshlutanna
Markaðsstofur Landshlutanna standa að vefnum

Markaðsstofur landshlutanna hafa ýtt úr vör nýjum kynningarvef www.upplifdu.is Vefurinn tengist landshlutavefnum markaðsstofanna og er viðbót við þær. Þarna eru áfangastaðir og afþreying kynnt með myndböndum og getur notandinn skipulagt sína eigin ferð.

Gagnvirkt vefsvæði, þar sem sérsníða má ferð

Um er að ræða gagnvirkt vefsvæði, þar sem notendum gefst kostur á að sníða ferðalagið nákvæmlega eftir sínu höfði og fá aðstoð við að sjá hvað er í boði á hverjum stað, fá nákvæma tímaáætlun milli áfangastaða og síðast en ekki síst, uppgötva nýja möguleika á myndrænan hátt. Þegar búið er að velja eru óskir ferðalangsins dregnar saman og úr verður heildstæð ferðaáætlun í formi myndbands sem og skjals, sem nær ekki aðeins utan um spennandi ferðalag heldur einnig utan um hagnýta hluti eins og lengd aksturs milli áfangastaða og áætlaðan tíma í hverri afþreyingu.

Útgáfan í boði á íslensku

Þessi útgáfa sem nú fer í loftið er á íslensku, ætluð íslenskum ferðamönnum. Í haust fer síðan í loftið enska útgáfan auk þess sem bætt verður við þessa fyrstu útgáfu.

Verkefni í þróun

Verkefnið er í stöðugri þróun og taka markaðsstofurnar við athugasemdum eða ábendingum um það sem betur má fara. Munu markaðsstofurnar bæta við meira myndefni og betri tengingum eftir því sem verkefnið þróast. Einnig á eftir að þróa bakenda sem nýtist samstarfsfyrirtækjum til að útbúa sín eigin kynningarmyndbönd.

Vefurinn er samstarfsverkefni

Að þessum vef standa allar Markaðsstofur landshlutanna og fengu þær stuðning úr Sóknaráætlunum Norðurlands eystra og vestra til að klára verkefnið.


Athugasemdir