Fara í efni

Nýr bæklingur og kennsluefni á vefnum fyrir starfsfólk ferðaskrifstofa og sjálfstæða söluaðila í Bretlandi

UK sölufólksbæklingur 07
UK sölufólksbæklingur 07

Mikilvægur þáttur í markaðsstarfi er fræðsla og þjálfun fyrir sölufólk. Ferðamálastofa hefur nú gefið út nýjan bækling fyrir söluaðila í Bretlandi. Megin tilgangurinn með honum er að kynna Ísland sem ákjósanlegan áfangastað allt árið og einnig að uppfræða þá sem eru nú þegar að setja saman ferðir um hvað er á boðstólum. Þá verður innan skamms opnaður vefur með kennsluefni fyrir sölufólk.

Ánægjulegt samstarf við landshlutana
Nýi bæklingurinn, sem er 36 síður, nefnist ?Iceland Travel Trade Guide?. Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálastofu fyrir Bretland, segir honum hafa verið dreift í 20 þúsund eintökum með riti sem heitir ?Selling short breaks & holidays? nú í byrjun október. ?Bæklingurinn er samstarfverkefni Ferðamálastofu og markaðsstofa flestra landshlutanna, Höfuðborgarstofu og Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins, Vestmannaeyja, flutningsaðila og hótelkeðja. Að mínu mati er gríðarlega mikilvægt að allir leggist á eitt í verkefnum sem þessu og ég er mjög ánægð með viðtökurnar sem verkefnið fékk hjá samstarfsaðilunum. Einnig er ánægjulegt að með svona samstarfi þá upplifir maður þá miklu grósku sem er í ferðamennsku á landsbyggðinni,? segir Sigrún.

Gagnvirkur kennsluvefur
Verkefninu verður svo fylgt eftir með kennsluvef eða "on-line training program? sem verður opnaður í næstu viku hjá Travel Uni. Verkefnið nefnist ?Iceland Informer? og hefur verið auglýst rækilega í miðlum BMI publications, sem gaf út og dreifði áðurnefndum bæklingi fyrir Ferðamálastofu. ?Ég er að gera mér von um að aðsókn að kennsluefninu verði góð. Því er beint að þeim tugum þúsunda sölufólks, eða ?agents? í Bretlandi sem eru að selja áfangastaði um víða veröld. Þetta fólk notar sölubæklinga eins og okkar og þjálfunarprógrömm eins og Iceland Informer til að læra um nýja áfangastaði til að selja. Við eigum að geta fylgst með því hversu margir eru að nýa sér kennsluefnið hverju sinni en vefurinn er gagnvirkur og alsjálfvirkur. Vefurinn eins og hann er nú verður opinn í eitt ár og minn draumur er að geta síðan bætt við fleiri kennslustigum þannig að á endanum útskrifist fólk sem ?Iceland Specialist?. Við munum einnig þegar fram líða stundir gera mjög eftirsóknarvert að skrá sig í kennsluprógrammið með því að verðlauna þá sem best standa sig með Íslandsferð,? segir Sigrún.