Fara í efni

Nýjustu spár um fjölda ferðamanna

Nýjustu spár um fjölda ferðamanna

Líkt og mörgum er kunnugt þá hefur Ferðamálastofa um nokkurt skeið haldið utan um spár um fjölda erlendra ferðamanna hér á landi á næstu árum, þ.e. þær spár sem hafa verið formlega birtar og stofnuninni er kunnugt um.  Spárnar eru birtar hér á vefnum og uppfærðar í hvert sinn sem aðili gefur út nýja spá. Núna eru eru til spár frá Ferðamálastofu, Íslandsbanka, Landsbankanum, Arionbanka og ISAVIA.

Samkvæmt meðaltali þessara spáa er gert ráð fyrir tæplega 2,4 milljónum erlendra ferðamanna á árinu 2024, rúmlega 2,5 milljónum árið 2025 og rúmlega 2,6 milljónum árið 2026. Nýjasta spáin er frá Íslandsbanka, dagsett í dag, og er að mestu samhljóða spá Ferðamálastofu sem kynnt var á dögunum.

Miðast við Keflavíkurflugvöll

Vert er að taka fram að miðað er við farþega um Keflavíkurflugvöll en hann hefur verið innkomustaður 98-99% ferðamanna síðustu ár. Þannig eru erlendir farþegar Norrönu ekki með í þessum tölum en þeir voru um 18 þúsund árið 2023. Þá hafa nokkur þúsund erlendir ferðamenn komið í gegnum aðra millilandaflugvelli en Keflavík.

Farþegar skemmtiferðaskipa koma einnig til viðbótar en þeir eru taldir sérstaklega sem dagsferðamenn. Voru ríflega 300 hundruð þúsund 2023 og horfur á álíka fjölda 2024.

Sjá nýjustu uppfærslur

Nánari upplýsingar veitir: Jóhann Viðar Ívarsson, johann@ferdamalastofa.is