Fara í efni

Ný skýrsla ETC um þróun og horfur í ferðaþjónustu í Evrópu

Fyrsta ársfjórðungsskýrsla Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) fyrir árið 2023 kom út fyrr í mánuðinum en þar er fjallað um þróun ferðaþjónustu í Evrópu á nýliðnu ári og horfurnar framundan. Skýrslan er unnin af ráðgjafafyrirtækinu Tourism Economics fyrir ETC. Ferðamálastofa á aðild að ráðinu ásamt ferðamálastofnunum 34 Evrópulanda.

Eins og fram kemur í skýrslu er ferðaþjónusta í Evrópu smám saman að ná þeim styrk sem hún hafði fyrir Covid-19 faraldurinn. Á heildina litið voru alþjóðlegar komur ferðamanna í Evrópu um 18% færri á árinu 2022 en þær voru 2019, árið fyrir faraldur.

Ísland er í hópi þeirra 12 Evrópuþjóða sem voru með innan við 15% færri ferðamenn á árinu 2022 samanborið við árið 2019. Af þeim 19 þjóðum sem voru með meira en 16% færri ferðamenn árið 2022 komu Finnland og Austur-Evrópulöndin verst út, með á bilinu 33%-42% færri ferðamenn. Örfá lönd, þ.m.t. Serbía og Tyrkland voru með svipaðan fjölda árið 2022 og 2019 og þá ekki síst vegna rússneskra ferðalanga sem hafa getað ferðast til landanna án vegabréfsáritunar.

Horfurnar 2023

Ferðaþjónusta kemur sterk inn í árið 2023 en fyrirliggjandi upplýsingar um alþjóðlegar komur ferðamanna það sem af er ári gefa til kynna að um eitt af hverjum þremur Evrópulöndum hafi náð þeim árangri sem var á sama tíma árið 2019. Hjá fjórðungi eru alþjóðlegar komur innan við 10% færri en þær voru 2019 og er Ísland eitt af þeim löndum.

Skýrsluhöfundar gera ráð fyrir að fjarmarkaðir muni taka við sér á árinu og muni verða mikill vöxtur í komum Bandaríkjamanna til Evrópu og þá ekki síst vegna hagstæðs gengis dollars gagnvart evrunni. Kínverski markaðurinn muni hins vegar taka hægar við sér þar sem ennþá gæti áhrifa Covid-19 heima við og tíma taki að endurskipuleggja flugáætlanir, auk þess sem uppsafnaður vandi er við að gefa út vegabréfaáritanir og vegabréf.

Stríðið í Úkraínu hefur hindrað bata ferðaþjónustunnar í Evrópu og er óvissan mikil um hvaða áhrif það muni hafa til framtíðar. Hægur hagvöxtur og þrálát verðbólga munu hafa áhrif á ferðaárið 2023 í Evrópu þar sem við neytendum blasi hærra flugverð og hærri dvalarkostnaður.

Frétt ETC