Fara í efni

Ný löggjöf á sviði ferðamála- kynning til hagaðila

Ný löggjöf á sviði ferðamála- kynning til hagaðila

Ferðamálastofa vinnur nú að kynningu á nýrri löggjöf á sviði ferðamála sem taka mun gildi 1. janúar 2019. Í dag voru send bréf til ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og skráðra bókunarþjónusta þar sem dregin eru fram þau atriði sem helst snerta rekstur þeirra. 

Þann 12. júní síðastliðinn voru samþykkt á Alþingi tvenn ný lög á sviði ferðamála, lög um Ferðamálastofu nr. 96/2018 og lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018Bæði lögin taka gildi 1. janúar 2019 og um leið falla úr gildi lög um skipan ferðamála og lög um alferðir.

Mikilvægt að öðlast skilning á nýjum hugtökum

Um töluverðar breytingar er að ræða á starfsumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja. Því er mikilvægt að forsvarsmenn þeirra og starfsmenn séu vel upplýstir um nýja löggjöf vel og öðlist góðan skilning á þeim hugtökum sem þar eru notuð. Í því skyni vinnur Ferðamálastofa nú markvisst að kynningu lagabreytinganna fyrir aðilum í ferðaþjónustu.

Bréf sent á núverandi leyfishafa og skráðar bókunarþjónustur

Hluti af kynningarátakinu er að senda hagaðilum bréf þar sem dregin eru fram þau atriði sem helst snerta rekstur þeirra. Í dag voru send bréf til ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og skráðra bókunarþjónusta. Hafi forsvarsmenn þessara aðila ekki fengið bréfin af einhverjum ástæðum eru þeir hvattir til að hafa samband við starfsfólk Ferðamálstofu á netfangið leyfisveitingar@ferdamalastofa.is.

Á næstu vikum verða bréf send fleiri hagaðilum, jafnframt verður nýjum upplýsingum og skýringargögnum bætt á heimasíðu stofnunarinnar. Starfsfólk Ferðamálastofu hvetur alla sem starfa í ferðaþjónustu til að fylgjast vel með og kynna sér nýja löggjöf tímanlega.

Hér má finna afrit af bréfunum sem send voru í dag:

Bréf til ferðaskrifstofa

Bréf til ferðaskipuleggjenda

Bréf til bókunarþjónusta