Fara í efni

Ný könnun ETC: Mikill ferðavilji í Evrópu í sumar

Ný könnun ETC: Mikill ferðavilji í Evrópu í sumar

Þrír af hverjum fjórum Evrópubúum hafa áform um ferðalög á tímabilinu apríl til september samkvæmt könnun sem Evrópska ferðamálaráðið (ETC) kynnti á heimasíðu ráðsins í síðustu viku. Ríflega helmingur ætlar að heimsækja annað Evrópuland.

Ferðaviljinn virðist því til staðar þrátt fyrir stríðsátök í Evrópu en innrás Rússa í Úkraínu var hafin þegar könnunin var framkvæmd. Könnunin er nú lögð fyrir í ellefta sinn meðal íbúa helstu ferðamannaþjóða Evrópu.¹

Niðurstöðurnar sýna jafnframt: 

  • að nærri tveir Evrópubúar af hverjum fimm (38%) ætla að ferðast á tímabilinu júní til júlí og tæplega þriðjungur á tímabilinu ágúst til september.
  • að 70% hafa áform um að ferðast út fyrir landsteinana næsta hálfa árið og ætlar tæplega þriðjungur (30,4%) að ferðast til nágrannalanda og um fjórðungur (25,4%) til annarra  Evrópulanda. 
  • að ríflega helmingur (56%) Evrópubúa  er þegar búinn að velja næsta áfangastað en fæstir hafa þó bókað ferðalagið að fullu.
  • að 1,4% Evrópubúa ætla í sína næstu Evrópuferð til Íslands. Áhuginn er hins vegar mestur fyrir Miðjarðarhafslöndum;  Spáni (10,8%), Ítalíu (8,9%) og Frakklandi (8,7%).
  • að langflest ferðalög (76%) sem framundan eru hjá Evrópubúum verða farin í tengslum við frí. Flestir hafa áform um sólarlandaferð (22,2%), borgarferð (15,0%), strandtengt (14,8) og náttúrutengt ferðalag (13,0%).   
  • að um fimmtungur Evrópubúa kýs að verja tíu nóttum eða lengur í næsta ferðalagi og um þriðjungur fjórum til sex nóttum.
  • að þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn sé á hröðu undanhaldi þá upplifa tveir af hverjum þremur Evrópubúum sem eru reiðubúnir að ferðast sig öruggari og afslappaðri með áfangastaði þar sem viðhafðar eru strangar sóttvarnar- og öryggisreglur.
  • að það sem Evrópubúar sakna mest við að ferðast og geta ekki beðið eftir að upplifa er að njóta lífsins í afslöppuðu umhverfi (17%), brjóta upp hina daglega rútínu (16,3%), eyða gæðastundum með fjölskyldu og vinum (13,2%), skapa nýjar minningar (13,1%) og upplifa nýja staði (10,2%)
¹Könnunin var gerð dagana 1.-9. mars 2022 en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar ellefu sinnum frá haustmánuðum 2020, þær síðustu í júlí, september og desember árið 2021.

Könnunin var upphaflega sett af stað til að vakta hvaða áhrif COVID-19 er að hafa á ferðaáætlanir og ferðalöngun Evrópubúa, hvers konar ferðalög Evrópubúar vilja fara, til hvaða áfangastaða, hvenær næstu frí verða tekin og hvort þeir óttist að ferðast. 

Könnunin náði til íbúa í Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Belgíu, Sviss, Spáni, Póllandi og Austurríki og var bundin við þátttakendur sem höfðu farið í a.m.k. tvö ferðalög á síðustu þremur árum (2019-2021) þar sem gist var yfir nótt. 45% þátttakenda voru karlar og 55% konur.    

Opna könnun