Fara í efni

Ný gönguleið á Fimmvörðuhálsi

Fimmvörðuháls ný gönguleið
Fimmvörðuháls ný gönguleið

Ný gönguleið hefur verið stikuð yfir Goðahraun á Fimmvörðuhálsi. Ferðamálastofa er meðal aðila sem komu að verkefninu og styrkti endurbætur á stígnum frá Básum og upp á Fimmvörðuháls.

Nýja gönguleiðin liggur m.a. um gígana Magna og Móða og er leiðin merkt með gulum stikum. Við val á gönguleið var haft í huga að röskun á nýja hrauninu yrði í lágmarki en jafnframt að ferðamaðurinn gæti notið hins stórkostlegu landslags og náttúruminja sem þar er að finna. Hafa ber í huga að mikil gosaska er á öllu svæðinu og getur orðið mikil svifryksmengun og villugjarnt þegar hreyfir vind. Stikun leiðarinnar var framkvæmd í samstarfi eftirtalinna aðila: Ríkislögreglustjóra-Almannavarnadeild, sýslumann og lögreglu á Hvolsvelli, sveitarfélagið Rangárþing eystra, Skógrækt ríkisins, Ferðafélagi Íslands, Ferðamálastofu, Útivist, Farfugla og Umhverfisstofnunar. Kort af leiðinni má sjá hér fyrir neðan.

Göngubrýr á hjólum
Þessu tengt má nefna að Útivist hefur sett upp nýjar göngubrýr á Krossá á Þórsmerkursvæðinu sem Ferðamálastofa styrkti einnig. Brýrnar eiga að leysa úr brýnni þörf hjá göngufólki sem þarf að komast milli Goðalands og Þórsmerkur, en síðustu ár hafa göngumenn þurft að vaða eina eða fleiri kvíslar Krossár til að komast þar á milli. Fyrir er göngubrú undir Valahnjúki en jökulsár eins og Krossá breyta gjarnan farvegi sínum og síðustu ár hefur áin að mestum hluta runnið framhjá brúnni. Með þessum nýju göngubrúm leysist sá vandi því brýrnar eru á hjólum og er því hægt að færa þær til eftir því sem áin breytir sér.