Fara í efni

Ný göngubrú við Fláajökul opnar mikla möguleika

Hér má sjá brúna í byggingu en hún er talsvert mannvirki.
Hér má sjá brúna í byggingu en hún er talsvert mannvirki.

Föstudaginn 16. maí næstkomandi verður formlega vígð ný göngubrú yfir Hólmsá við Fláajökul en verkefnið er styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Markmiðið er m.a. að byggja upp leiðina sem hefur verið nefnd Jöklaleið eða Jöklavegur, gönguleið við suðurjaðar Vatnajökuls. Leiðin frá Fláajökli að Hjallanesi er annar áfangi þeirrar leiðar. Ríki Vatnajökuls hefur yfirumsjón með verkefninu.

Frumkvæði ferðaþjónustuaðila

Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu höfðu frumkvæði að verkefninu, einkum Ferðaþjónustan Hólmi og Ferðaþjónusta bænda Brunnhóli, en Sveitarfélagið Hornafjörður hefur haft forgöngu um framkvæmdina.

Aukin tækifæri til útivistar og atvinnusköpunar

Göngubrúin er hengibrú yfir Hólmsá og opnar hún aðgengi að Fláajökli og að austurhluta Heinabergssvæðis sem eru hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Um árabil var greið aðkomuleið að Fláajökli vestanverðum en hún rofnaði þegar jökullinn hopaði. Með bættu aðgengi sem bygging göngubrúar yfir Hólmsá skapar, aukast bæði tækifæri til útivistar og atvinnusköpunar innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Með brúnni opnast greið leið göngufólks inn á mjög verðmætt svæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem finna má óspilltar jökulminjar, bergmyndanir og áhugaverða gróðurframvindu. Að opna slíkt aðgengi inn á svæðið vestan frá hefði á hinn bóginn kallað á umfangsmikla vegaslóða og jarðrask og því var göngubrúin talin mun vænlegri nálgun. Brúarstæði var valinn staður þar sem vegurinn að jöklinum var áður.

Þegar vinsæll áfangastaður

Síðastliðinn áratug hefur margvísleg uppbygging átt sér stað á svæðinu við Fláajökul, svo sem merking gönguleiða, gerð og uppbygging fræðsluskilta og reist salernisaðstöðu, umhverfisvæn og sú fyrsta slíkrar gerðar á Íslandi. Svæðið er orðið vinsæll áfangastaður og hefur aðsókn vaxið jafnt og þétt.

Brú við Fláajökul
Á þessari mynd er verkið langt komið.