Fara í efni

Norðursigling hlaut nýsköpunarverðlaun SAF

Nýsköpunarverðlaun SAF 2007
Nýsköpunarverðlaun SAF 2007

Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar voru afhent í fjórða sinn síðastliðinn föstudag. Þau komu að þessu sinni í hlut hvalaskoðunarfyrirtækisins Norðursiglingar á Húsavík.

Í frétt á vef SAF kemur fram að þrennt hafi einkum legið til grundvallar ákvörðunar dómnefndar:

? Norðursigling, sem nú hefur starfað í 13 sumur, hefur frá upphafi staðið fyrir samfelldri nýsköpun og vöruþróun í þeirri viðleitni fyrirtækisins að gera hvalaskoðun að eftirsóknarverðri afþreyingu á Íslandi.  Stefna fyrirtækisins er mörkuð hugsjón og virðingu fyrir sögu strandmenningar á landinu, eins og uppbygging skipakosts fyrirtækisins og aðstöðu við höfnina á Húsavík ber með sér, sem og aðkoma að Húsavíkurhátíð.
? Norðursigling hefur sýnt og sannað að með réttri hugmynd, markaðri stefnu og elju við útfærslu hennar má skapa ákveðnum stað á landsbyggðinni slíka ímynd og nafn meðal ferðamanna, að nauðsynlegt þyki að sækja hann heim.
? Samfélagsleg áhrif Norðursiglingar eru veruleg og með starfsemi sinni hefur fyrirtækið stuðlað að uppbyggingu sterks og arðbærs ferðaþjónustukjarna á Húsavík, sem fjöldi fólks hefur atvinnu af.

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs SAF er að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar. Stjórn sjóðsins skipa: Jón Karl Ólafsson, formaður SAF, Edward Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs, og Jón Baldur Þorbjörnsson, eigandi ferðaskrifstofunnar Ísafold.

Saga Norðursiglingar nær aftur til 1994 þegar bræðurnir Árni og Hörður Sigurbjarnarsynir keyptu 20 tonna eikarbát, Knörrinn, og komu með til Húsavíkur. Upprunalegi tilgangurinn var sá að bjarga skipinu frá eyðileggingu en því var síðan fundið nýtt hlutverk við náttúru og hvalaskoðum, sem sló svo sannarlega í gegn. Norðursiglingu hafa hlotnast margvíslegar viðurkenningar, meðal annars umhverfisverðlaun Ferðamálastofu árið 1996.

Mynd: Kristján Möller samgönguráðherra afhendir Herði Sigurbjarnarsyni, framkvæmdastjóra Norðursiglingar, nýsköpunarverðlaun SAF 2007.