Fara í efni

Niðurstöður hugmyndasamkeppni um Dyrfjallasvæðið og Stórurð

Frá Stórurð. Mynd af www.borgarfjordureystri.is
Frá Stórurð. Mynd af www.borgarfjordureystri.is

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti á árinu styrk til samkeppni um hönnun og skipulag fyrir Dyrfjallasvæðið og Stórurð. Niðurstöður úr henni voru kynntar í vikunni og hlutskarpastur varð norski arkitektinn Eirik Rönning Andersen frá ZeroImpactStrategies.

Markmið samkeppninnar

Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhreppur efndu til hugmyndasamkeppninnar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Alls bárust fimm tillögur. Markmiðið var að fá fram hugmyndir að lausnum og mannvirkjum til að styrkja staðarímynd Dyrfjalla og Stórurðar sem ferðamannastaðar, varðveita huglægt gildi náttúru og lítt snortins víðernis, þrátt fyrir vaxandi umferð ferðamanna, bæta aðgengi göngufólks að svæðinu Dyrfjöll – Stórurð, merkja svæðið vel með vegvísum, gönguleiðarmerkjum og upplýsingatöflum og stuðla að góðri umgengni sem hlífir viðkvæmri náttúru, m.a. með uppbyggingu eins eða fleiri áningarstaða með upplýsingum og snyrtingu.

Skýrskotun til Dyranna

Í niðurstöðu dómnefndar um verðlaunatillöguna segir að tillagan sýni sannfærandi formhugmynd sem er gegnum gangandi bæði í útliti bygginga og annarra mannvirkja. Hugmyndin sé frumleg og skírskoti til Dyranna í Dyrfjöllum og yrði auðþekkt kennimark þó það væri nýtt annars staðar. Höfundar yrðu þó að huga að því að endurskoða efnisval og aðlaga það að harðri veðráttu á svæðinu. Hugmynd að merkingu einstakra gönguleiða sé skýr með einföldu formi.

Hér má sá mynd af verðlaunatillögunni

Tvær aðrar tillögur keyptar

Þá ákvað dómnefnd að kaupa tvær tillögur. Önnur tillagan er eftir Stáss Arkitekta. Höfundar eru Árný Þórarinsdóttir og Helga Guðrún Vilmundardóttir og ráðgjafi var Grafík Reykjavík Letterpress, Kári Jóhann Sævarsson. Um hana segir dómnefnd að efnisval tillögunnar sé sannfærandi og lausnirnar á gönguleiðum að mörgu leyti hentugar.

Hin tillaga sem keypt var er eftir Kanon arkitekta. Höfundar hennar eru Birkir Einarsson, Halldóra Bragadóttir, Helgi B. Thóroddsen, Anna Sóley Þorsteinsdóttir. Um hana segir dómnefnd að tillagan sýni djarfa og frumlega lausn, sem um margt skírskoti frekar til listrænnar innsetningar en samlögunar við Dyrfjalla- og Stórurðarsvæðið.

Erik og Björn Ingimarsson
Erik Rönning tekur við verðlaununum úr hendi Björns Ingimarssonar, sveitarstjóra Fljótsdalshéraðs.