Niðurstaða fundar Ferðamálastofu með forráðamönnum ferðaskrifstofanna VITA, Heimsferða og Ferðaskrifstofu Íslands

Niðurstaða fundar Ferðamálastofu með forráðamönnum ferðaskrifstofanna VITA, Heimsferða og Ferðaskrifstofu Íslands
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Samkeppniseftirlitið veitti, með ákvörðun nr. 12/2020, undanþágu fyrir samstarfi á vettvangi ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu í því skyni að tryggja hagsmuni ferðalanga og treysta stoðir samkeppnishæfrar ferðaþjónustu.

Í framhaldi af þessari ákvörðun boðaði Ferðamálastofa til fundar sunnudaginn 15. mars 2020 með fulltrúum þriggja ferðaskrifstofa, VITA, Heimsferða og Ferðaskrifstofu Íslands, sem selja pakkaferðir til Alicante, Kanaríeyja og Tenerife. 

Niðurstaða fundarins er eftirfarandi:

  1.  Samkeppniseftirlitið veitti með ákvörðun nr. 12/2020 undanþágu fyrir samstarfi á vettvangi ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu í því skyni að tryggja hagsmuni ferðalanga og treysta stoðir samkeppnishæfrar ferðaþjónustu.

  2. Fundur var haldinn af Ferðamálastofu sunnudaginn 15. mars 2020 með fulltrúum þriggja ferðaskrifstofa, VITA, Heimsferða og Ferðaskrifstofu Íslands, sem selja pakkaferðir til Alicante, Kanaríeyja og Tenerife.

  3. Fram kom á fundinum að ferðaskrifstofur myndu bregðast við afbókunum á venjubundin hátt enda ekki um flugbann að ræða til áfangastaða.

  4. Fram kom á fundinum að tilmæli yfirvalda um að ferðamenn íhugi heimferðir fyrr en áætlað, þrátt fyrir að flugsamgöngum sé ekki raskað, gætu kallað á breytingu á samningi aðila um pakkaferðir eða einstaka flugsæti. Í því ljósi munu ferðaskrifstofurnar kanna hjá sínum viðskiptavinum sem staddir eru á Kanaríeyjum eða Tenerife hvort áhugi sé á því að flýta heimferð. Tekið skal fram að ferðaáætlanir um heimferðir á þriðjudag 17. mars og miðvikudag 18. mars standa, en könnunin næði til farþega sem eiga heimferð á tímabilinu eftir 18. mars fram til 30. mars 2020. Miðast tímabilið við lengd útgöngubanns sem sett hefur verið af spænskum stjórnvöldum.

  5. Af hálfu ferðaskrifstofanna er vakin sérstök athygli á því að með því að farþegar óska eftir breytingu sem felur í sér að heimferð er flýtt, hafa aðilar komist að samkomulagi um fullar efndir af hálfu ferðaskrifstofanna.

Nánari upplýsingar

Fyrir nánari upplýsingar og útfærslu á samkomulaginu er fólki bent á að að hafa samband við þá ferðaskrifstofu sem það átti viðskipti við. Einnig er bent á að Neytendastofa hefur eftirlit með þeim ákvæðum pakkaferðalaga sem snúa að afpöntun og aflýsingu pakkaferðar og má nálgast upplýsingar um afpöntun og aflýsingu pakkaferða á vef þeirra.

 


Athugasemdir