Fara í efni

Náttúra Vestfjarða og ferðamennska

Dynjandi
Dynjandi

Dagana 15.-16. apríl næstkomandi verður haldin ráðstefna á Ísafirði með yfirskriftinni "Náttúra Vestfjarða og ferðamennska". Að henni standa Ferðamálasamtök Vestfjarða, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Náttúrustofa Vestfjarða.

Eins og nafn ráðstefnunnar gefur til kynna verður þema hennar náttúra Vestfjarða og hvernig hægt sé að tengja hana ferðamennskunni á svæðinu þannig að hagsmunir ferðaþjónustuaðila og ferðamanna fari saman. Markmið ráðstefnunnar er að leitast við að svara mjög sértækum spurningum um náttúru og ferðamennsku, s.s. hvaða náttúrufyrirbæri eru á Vestfjörðum, hvar eru þau, hverjir vilja skoða þau, hvenær og hvað má það kosta.

Fyrirlesarar koma víða að
Um er að ræða tveggja daga ráðstefnu, frá hádegi á föstudegi og fram til kl. 16 á laugardegi. Fyrirlesarar koma úr ýmsum áttum og munu fjalla um þetta málefni út frá mörgum sjónarhornum. Fyrirlestrarnir ná yfir allt sviðið, s.s. ferðaþjónusta, ferðamennska, markaðssetning menning svæðisins, náttúruvísindi, rannsóknir, öryggi ferðamanna, aðgengi inn á svæðið og innan þess.

Heimasíða ráðstefnunnar
Opnuð hefur verið heimasíða ráðstefnunnar. Þar eru allar upplýsingar um ráðstefnuna að finna og þar fer skráning fram. Allar nýjar upplýsingar verða færðar inn á heimasíðuna jafnóðum og þær berast. Að auki veitir verkefnisstjóri, Anna Guðrún Edvardsdóttir, upplýsingar í síma 456 7207, GSM 864 0332 og netfang: arun@nave.is