Fara í efni

Námssmiðja um jarðferðamennsku (Geo-tourism)

Myvatn2
Myvatn2

Dagana 2. til 4. september 2009 verður haldin námssmiðja á Hótel Gíg í Mývatnssveit þar sem viðfangsefnið er vöruþróun í náttúrutengdri ferðamennsku á grunni samþykktar National Geographic um jarðferðamennsku (ens:geotourism).

Sjálfbærni hefur verið markmið í ferðaþjónustu á Íslandi í meira en áratug og að því marki beinast ýmis vottunarferli og stefnuyfirlýsingar sem tekin hafa verið upp af ríki og einstökum byggðarlögum. Þessi ferli hafa beinst að tilteknum atvinnurekstri, s.s.  fólksflutningum, hótelstjórnun og umhverfisstefnu sveitarfélaga svo eitthvað sé nefnt. Til þessa hefur ekki verið kynnt neitt ferli sem tekur til stjórnunar á ferðamannastöðum sem byggja aðdráttarafl sitt á náttúru og leggur höfuðáherslu á varðveislu ásýndar landsins, menningarinnar og velferðar íbúanna.

Mývatn og nágrenni þess er þekkt og fjölsótt vegna fjölbreyttra náttúrufyrirbæra. Lykillinn að velgengni svæðisins sem ferðamannastaðar er náttúruvernd í uppbyggilegu gagnkvæmu sambandi við ferðaþjónustu. Til að stuðla að þessu á Norðausturlandi og landinu öllu er boðað til tveggja daga námssmiðju / workshop á vegum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Útflutningsráðs Íslands, Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála og Svartárkots fræðaseturs.

Fundurinn verður sem fyrr segir á Hótel Gíg dagana 2. til 4. september 2009 og verða þar bæði framsöguerindi og staðarheimsóknir til að efla almenna umræðu og raunhæfar aðgerðir.

Aðalfyrirlesari og stjórnandi vinnuhópa verður Dr. David Newsome, aðstoðarprófessor við Murdoch háskólann í Ástralíu og höfundur bókanna Geoourism. Sustainability, Impact, Management (Butterworth-Heinemann, 2005) og Nature Area Tourism (Channel View Publications, 2002)

Áhugasamir eru beðnir að skrá sig á vefsíðunni www.svartarkot.is fyrir 24. ágúst 2009.