Fara í efni

Mikil umferð um nýjan visiticeland.com

forsíða visiticeland
forsíða visiticeland

Mikil umferð hefur verið um landkynningarvef Ferðamálastofu visiticeland.com síðustu vikur en ný útgáfa af honum fór í loftið fyrir nokkru síðan. Stærsta breytingin felst í tengingu við gagnvirkt landakort og samtengingu við landshlutavefi.

Visiticeland-vefurinn hefur verið í loftinu frá árinu 1996 og er einn fjölsóttasti ferðavefur landsins. Verðmæti hans felast ekki síst í sterkri stöðu á leitarvélum. Þar hefst einmitt ferðalag svo margra. Visiticeland.com gegnir veigamiklu hlutverki í kynningu og markaðssetningu ferðamannalandsins Íslands. Vefnum er bæði ætlað markaðslegt hlutverk, þ.e. að laða fólk til landsins, og jafnframt að vera ferðalöngum hagnýtur upplýsingabrunnur um hvaðeina er lítur að ferðalagi þeirra hérlendis. Vefurinn er á níu erlendum tungumálum, auk Íslensku, og það eitt gefur honum verulega sérstöðu. Ferðamálastofa hefur einnig verið að beina markaðssetningu sinni inn á svokallaða samfélagsvefi, facebook, tvitter og blog, og á visiticeland.com er tengibraut inn á þessa nýju miðla.

Gagnagrunnur um íslenska ferðaþjónustu
Á visiticeland.com geta gestir fengið margvíslegar upplýsingar um land og þjóð, skoðað myndir, pantað bæklinga og gert fyrirspurnir. Einn grundvallarþáttur vefsins er sá viðamikli gagnagrunnur um íslenska ferðaþjónustuaðila sem byggður hefur verið upp á vegum Ferðamálastofu á undanförnum árum. Í grunninum eru nú upplýsingar um vel á annað þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land, ásamt ýmsum hagnýtum upplýsingum fyrir ferðafólk. Má fullyrða að um er að ræða heildstæðasta gagnagrunninn um íslenska ferðaþjónustu sem til er í dag og er hann alltaf að stækka. Við gagnagrunnin hefur síðan verið tengd öflug leitarvél sem ætti að gagnast fólki vel við að skipuleggja ferð  sína um landið.

Gagnvirkur gortagrunnur
Stærsta breytingin nú er síðan að við vefinn hefur verið tengdur gagnvirkur kortagrunnur með lofmyndum þar sem sjá má staðsetningu hvers og eins þjónustuaðila. Þetta gerbreytir í raun notkunar- og upplýsingagildi vefsins.

Net landkynningarvefja
En það er annað og jafnvel enn stærra atriði sem fylgir þessari endurnýjun nú. Þannig munu markaðsstofur landshlutanna, Vesturland, Vestfirðir, Norðurland, Austurland, Suðurland og Suðurnes, hver um sig opna vefi í sama útliti með sambærilegri virki. Allir vefirnir nota áðurnefndan gagnagrunn um ferðaþjónustuaðila sem þannig er viðhaldið og hann uppfærður á einum stað en allar breytingar og uppfærslur skila sér gerast samstundis til allra. Með þessu móti verður í fyrsta sinn til samræmt net landkynningarvefja fyrir allt landið. Fyrsti vefurinn www.south.is er þegar farinn í loftið, www.nordurland.is verður opnaður í dag og síðan koll af kolli.

Forritun og tæknimál voru í höndum Atómstöðvarinnar en kortagrunnur kemur frá Loftmyndum.