Fara í efni

Mikil gróska og kraftur í íslenskri ferðaþjónustu

skriduklaustur
skriduklaustur

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri var á ferð um landið á dögunum og heimsótti ferðaþjónustuaðila á Norður-, Austur- og Suðurlandi. Hún kom víða við og segist full bjartsýni fyrir hönd íslenskrar ferðaþjónustu miðað við það sem hún sá.

Ólöf segir ánægjulegt að sá þá miklu grósku og þann mikla kraft sem býr í íslenskri ferðaþjónustu. ?Ég held að það sé sama á hvaða sviði við berum niður, hvort sem það er uppbygging í gistingu, afþreyingu eða samgöngum. Á öllum sviðum er fólk mjög einbeitt í að skapa betri aðstæður til að taka á móti gestum okkar og nýta þá möguleika sem hver staður hefur uppá að bjóða. Ferðaþjónustan hefur vaxið, ferðamönnum fjölgað og þá er samhliða afar mikilvægt að við séum meðvituð um nauðsyn þess að dreifa álaginu. Liður í því er að skapa sem fjölbreyttasta möguleika til dægradvalar um allt land þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi,? segir Ólöf.

Óþrjótandi möguleikar
Ólöf nefnir söfnin og setrin sem dæmi. ?Ég heimsótti meðal annars í ferðinni Selasetrið á Hvammstanga, Tækniminjasafn á Seyðisfirði, steinasafn á Breiðdalsvík, fuglasafn á Djúpavogi og Þórbergssetur á Hala í Suðursveit. Víða er síðan svona starfsemi liður í náttúrutengdri upplifun, t.d. selaskoðun á Vatnsnesi, fuglaskoðun o.s.frv. Íslensk náttúra er auðvitað endalaus uppspretta nýrra ævintýra þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég átti þess t.d. kost í ferðinni að fara á tónleika á Borgarfirði Eystra, ganga um Lónsöræfi og gista í Kollumúlaskála, skoða Heimabergssvæðið innan Vatnajökulsþjóðgarðs, fara í fjórhjólaferð í Syðri-Fjörur og sigla á Jökulsárlóni. Af þessu má sjá að möguleikarnir eru sannarlega margir.? Þá nefnir hún að fróðlegt hafi verið að ferðast um Fljótsdalshérað, skoða Kárahnjúkavirkjun, Hálslón og leiðir þar í nágrenninu.

Beint og milliliðalaust samband mikilvægt
Þótt Ólöf segist alla tíð hafa ferðast mikið um landið sé því ekki að neita að sem ferðamálastjóri nálgist hún málin frá nýju sjónarhorni. ?Beint og milliliðalaust samband við fólkið um allt land er mér afar mikilvægt og í ferðinni átti ég þess kost að ræða við aðila víða um land, kynnast sjónarmiðum þeirra, skoða það sem verið er að gera og heyra áform um það sem framundan er. Einnig að kynna mér af eigin raun aðstæður á ýmsum stöðum, t.d. við Reynisfjöru sem nokkuð hefur verið í umræðunni upp á síðkastið. En ég get ekki annað sagt en að þrátt fyrir að margar áskoranir bíði íslenskrar ferðaþjónustu sé ég bjartsýn fyrir hönd greinarinnar miðað við það sem ég sá,? segir Ólöf Ýrr.

Ólöf kynnir sér uppgröft við Skriðuklaustur með þeim Skúla Birni Gunnarssyni og Steinunni Kristjánsdóttur. Útsýnisstaður við Hálslón ofan Káranhjúkastíflu.
Ólöf með Emblu dóttur sinni í stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar. Í Klausturseli.
Við Skálanes. Útsýnispallur við Skálanes.