Fara í efni

Mikil aukning hótelgistingar í janúar

Gisting janúar 2007
Gisting janúar 2007

Hagstofan hefur birt tölur um gistinætur á hótelum í janúar. Gistinæturnar rúmlega 50700 en voru 40400 í sama mánuði árið 2006, sem er fjölgun um 10300 nætur eða 26%.

Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Norðurlandi þar sem fjöldinn stóð í stað. Aukningin var hlutfallslega mest á Austurlandi þar sem gistinætur nánast þrefölduðust, fóru úr 700 í 2.000 milli ára. Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum um 27%, úr 2.100 í 2.700. Á höfuðborgarsvæðinu nam fjölgunin 25% í janúar, en fjöldi gistinátta fór úr 31.400 í 39.100 milli ára. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum úr 4.500 í 5.200, eða um 15%. Tölur fyrir þessa landshluta eru lagðar saman og birtar í einu lagi vegna þess hve gististaðir á Suðurnesjum og Vestfjörðum eru fáir. Á Norðurlandi stóð fjöldi gistinátta í janúar í stað milli ára og var 1.700.

Gistinóttum útlendinga fjölgaði um 34% og Íslendinga um 9%.  Útlendingar vega þó þyngra þar sem gistinætur þeirra eru tæp 72% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í janúar.

Gistirými á hótelum í janúarmánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 3.346 í 3.762, 12% aukning og fjöldi rúma úr 6.839 í 7.648, 12% aukning.  Hótel sem opin voru í janúar síðastliðnum voru 70 en 65 í sama mánuði árið 2006. Hagstofan vekur athygli á að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Tölur fyrir 2006 og 2007 eru bráðabirgðatölur, segir í frétt Hagstofunnar.

Frekara talanaefni um gistinætur er á vef Hagstofunnar