Fara í efni

Mikil ánægja með Japansför

japan1
japan1

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segist afar ánægð með nýafstaðna ferð til Japans þar sem fram fór kynning á ferðaþjónustu og tækifærum til fjárfestinga hér á landi. Það voru Ferðamálastofa, Útflutningsráð, Fjárfestingastofa og Film in Iceland sem stóðu að kynningunni í samvinnu við sendiráð Íslands í Japan og utanríkisráðuneytið.

Samtals tóku 14 fulltrúar fyrirtækja og stofnana þátt í ferðinni auk forsvarsmanna Útflutningsráðs og Ferðamálastofu. Þarf af voru fulltrúar sjö ferðaþjónustufyrirtækja sem kynntu Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn. Japönskum ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum var meðal annars boðið til kynningar á Íslandi og var þátttaka mjög góð. Hátt í 70 manns frá tæplega 40 japönskum fyrirtækjum sóttu kynninguna og í framhaldinu notuðu íslensku fyrirtækin ferðina til að hitta fólk og styrkja viðskiptatengslin. Ólöf Ýrr sagði ferðina hafa verið afar gagnlega að sínu mati og hún nýtt tækifærið m.a. til að koma á tengslum við samtök ferðaskrifstofa og opinbera ferðamálaaðila. 

Auka þekkingu á Íslandi
Á undanförnum árum hafa á milli 6 og 7 þúsund ferðamenn sótt landið heim. Í fyrra voru þeir 6.700 og hafa aldrei verið fleiri. Ólöf segist telja alla möguleika fyrir hendi að fjölga japönskum ferðamönnum hingað til lands. Japanir telji um 120 milljónir, séu með annað stærsta hagkerfi í heimi og duglegir að ferðast þannig að eftir miklu sé að slægjast. ?Japanir eru sannarlega ekki okkar næstu nágrannar þannig að við verðum að hafa raunhæfar væntingar um fjölgun ferðamanna þaðan. Það þarf fyrst að auka almenna þekkingu Japana um Ísland og Ferðamálastofa er að skoða með með hvaða hætti hún getur stutt frekar við það markaðs- og kynningarstarf sem fram fer á markaðinum,? segir Ólöf og bætir við að Ferðamálastofa sé meðal annars með í undirbúningi að bæta við japönskum hluta á landkynningarvefinn visiticeland.com


Ólöf Ýrr flytur erindi á kynningu fyrir japanskar ferðaskrifstofur.


Stefán Lárus Stefánsson, sendiherra.


Vel var mætt á kynninguna.


Fyrirtækin notuðu ferðina til að skapa viðskiptatengsl.


Íslenskur matur á borðum.


Íslenski jólasveinninn stóð fyrir sínu.