Fara í efni

Mikil ánægja með ferðaþjónustuna í heimabyggð en ýmislegt brennur á

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Niðurstöður könnunar á viðhorfum heimfólks til ferðamanna og ferðaþjónustu voru kynntar í dag á fundi sem Ferðamálastofa stóð fyrir í samvinnu við Íslenska Ferðaklasann. Könnunin náði til Reykjanesbæjar, Stykkishólms, Húsavíkur og Egilsstaða.

Helstu niðurstöður voru þær að allt stór hluti íbúa á þessum svæðum verður nær daglega var við ferðamenn og að ánægja með ferðaþjónustuna í heimabyggðinni er mikil. Hins vegar eru þau mál sem brenna mest á heimamönnum varðandi ferðaþjónustuna ólík eftir svæðum.

Könnunin er hluti af opinberri gagnasöfnun og greiningu á félagslegum áhrifum ferðaþjónustunnar á samfélag heimamanna sem hófst árið 2016.

Eykur fjölbreytileika mannlífs og atvinnulífs 

Sem fyrr segir benda niðurstöðurnar til þess að á öllum svæðunum séu viðhorf til ferðamanna og ferðaþjónustu heilt yfir jákvæð. Svarendur könnunarinnar töldu ferðaþjónustu auka fjölbreytileika mannlífs og atvinnulífs á svæðunum og að ferðaþjónusta hefði jákvæð áhrif á búsetuskilyrði. Aðeins fjórðungur svarenda telur ferðamenn of marga og að ferðamenn valdi meira ónæði í daglega lífinu heldur en áður.

Niðurstöður eftir svæðum

Í viðtölunum komu fram mismunandi áherslur í þeim málum sem brenna hvað mest á íbúum svæðanna.

  • Á Húsavík var ánægja með iðandi mannlíf á sumrin og aukna þjónustu en á sama tíma eru íbúar ósáttir við umferðartafir sem geta orðið í miðpbænum.
  • Á Egilsstöðum var mikil ánægja með hátt þjónustustig í bænum sem að hluta til er vegna ferðamanna en áhyggjur íbúanna tengjast umferð í bænum enda liggja þar í gegn fjölfarin vegamót.
  • Í Stykkishólmi er einnig ánægja með ferðamenn en þar hefur heimagistingin bæði fært heimamönnum tekjur og ónæði sem getur verið erfitt að eiga við.
  • Í Reykjanesbæ, þar sem nær allir ferðamenn koma inn í landið reyndust ferðamenn ekki vera áberandi í bæjarmyndinni en voru engu að síður samfélaginu mikilvægir enda mikið af störfum í kringum ferðaþjónustu á svæðinu.

Um könnunina

Kannanir á viðhorfum heimamanna til ferðaþjónustu og ferðamennsku hafa farið fram með reglubundnum hætti frá árinu 2016. Ferðamennska og ferðaþjónusta geta haft margvísleg menningarleg og félagsleg áhrif á samfélag heimamanna – sem aftur getur hefur áhrif á viðhorf fólks til atvinnugreinarinnar. Í könnuninni er þetta samspil skoðað ýmist á landsvísu eða í einstökum bæjarfélögum, og tengist markmiði stjórnvalda að hugað verði að því að tryggja áfram jákvætt viðhorf landsmanna til ferðaþjónustu (Vegvísir í ferðaþjónustu 2015). Könnun hefur ýmist farið fram á landsvísu eða skoðað einstök bæjarfélög. Árið 2018 fór könnunin fram í Reykjanesbæ, Stykkishólmi, Húsavík og á Egilsstöðum.

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) vann rannsóknina fyrir hönd hins opinbera. Í dag voru fyrstu niðurstöður kynntar, en útgáfa rannsóknaskýrslna verður í maí næstkomandi.

Könnunin var tvíþætt. Annars vegar var gerð símakönnun meðal úrtaks í búa á svæðunum. Úrtakið var 3.700 manns og fengust 1.480 svör. Hins vegar voru tekin 24 viðtöl við íbúa á svæðunum til að fá innsýn í upplifun íbúa af ferðamönnum og ferðaþjónustu í þeirra umhverfi.

Um rannsakendur

Eyrún Jenný Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá RMF framkvæmdi rannsóknina. Eyrún er ferðamálafræðingur að mennt og kom fyrst að rannsóknum á viðhorfum heimamanna til ferðamanna og ferðaþjónustu árið 2014 þegar viðhorf landsmanna voru könnuð fyrst hér á landi að frumkvæði Ferðamálastofu. Síðan þá hefur Eyrún fyrir hönd RMF stýrt þeim rannsóknum á viðhorfum heimamanna sem gerðar hafa verið fyrir hönd hins opinbera.

Efni og upptökur

Nálgast má efni og upptökur frá fundinum í dag hér að neðan.

Næstu kynningar

Næsta hádegiskynning sem Ferðamálstofa mun standa fyrir í samvinnu við Íslenska ferðaklasann verður 8. mars næstkomandi. Þá verður haldið áfram með sama efni og kynntar niðurstöður rannsóknar Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Höfn á menningar- og félagslegum áhrifum ferðamennsku á öllum þéttbýlisstöðum á Suðurlandi.