Fara í efni

Metfjöldi skemmtiskipa til Íslands í sumar

skemmtiferdaskip4mar2005
skemmtiferdaskip4mar2005

Í næstu viku fer fram á Miami í Bandaríkjunum alþjóðleg kaupstefna og sýning um viðskipti skemmtiskipa (cruise). Samtökin "Cruise Iceland" undir leiðsögn Ferðamálaráðs standa að sameiginlegum sýningarbás fyrir Ísland, Grænland og Færeyjar á sýningunni.

Auk samtakanna og Ferðamálaráðs verða hafnirnar á Seyðisfirði, Húsavík, Akureyri, Ísafirði og Reykjavík með fulltrúa á sýningarbásnum. Þá eru fulltrúar ferðaskrifstofanna Atlantic og Iceland Travel einnig á básnum. Þegar hafa amk 73 skemmtiskip bókað komu til Reykjavíkur í sumar með yfir 50.000 gesti. Stór hluti fer einnig á aðrar hafnir um landið. Sem dæmi má nefna að 57 skip hafa bókað komu til Akureyrar og um 20 til Ísafjarðar.

Uppskera markvissra markaðsaðgerða
Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs telur að þessi árangur sé uppskera markvissra markaðsaðgerða undanfarinna missera, þar sem margir hafa lagt hönd á plóg. "Það er einnig athyglisvert að næsta sumar munu um 10 skip skipta um farþega hér á landi sem þýðir að nýir farþegar koma um Keflavíkur flugvöll og hinnir fara þaðan. Þá sýna kannanir að um 15-20% farþega í skemmtiskipum koma aftur til áfangastaðarins með flugi síðar," segir Ársæll


Skemmtiferðaskipið Discovery við bryggju á Akureyri.