Fara í efni

Metfjöldi í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík á haustmánuðum 2008

upplmidstod
upplmidstod

Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík tók á móti 30% fleiri gestum í september, október og nóvember 2008 ef bornir eru saman mánuðir milli ára 2007 og 2008. Desembermánuður sló hins vegar öll fyrri met um aukinn gestafjölda með 43% fjölgun heimsókna miðað við 2007. 

Ferðamenn verða sífellt sjálfstæðari í skipulagningu
Þrátt fyrir að fjölgun erlendra ferðamanna yfir allt árið 2008 hafi verið minni en undanfarin áratug, eða um 3% í stað um það bil 8% fjölgun að jafnaði sl. 10 ár, virðist sem þeir leiti meira til upplýsingamiðstöðva og bóki þar sínar ferðir, gistingu og aðra þjónustu.  Er það í takt við þá þróun í ferðaþjónustu, bæði hérlendis og annarstaðar, að ferðamenn verða sífellt sjálfstæðari í skipulagningu sinni auk þess sem þeir eru hvatvísari í ferðakaupum og kaupa til að mynda helgarferð með afar skömmum fyrirvara ef hún gefst á hagstæðu verði, segir í frétt frá Höfuðborgarstofu.

Einnig segir að starfsfólk upplýsingamiðstöðvarinnar telur að óvenju mikið sé um erlenda ferðamenn um þessar mundir, á árstíma sem alla jafna er fremur rólegur í ferðaþjónustu.  Þeir séu spenntir  fyrir hefðbundnum kynnisferðum, svo sem í Bláa lónið og á Gullfoss og Geysi. Einnig er mikið spurt um norðurljósin og ýmsar ferðir þeim tengdar. Þá er einnig mikið spurt um söfn og sýningar af ýmsu tagi, lifandi tónlist, veitingastaði, sundlaugar og heimsóknir í heilsulindir. Ennfremur seljast dýrari ferðir, svo sem jeppaferðir með fáa farþega, betur nú en oft áður og að fólk setji verðlagið síður fyrir sig.

Endurgreiðsla á virðisauka til erlendra ferðamanna jókst að sama skapi gríðarlega og því ljóst að sala á ýmsum vörum til þessa hóps hefur aukist mikið. Endurgreiðsla Iceland Refund í upplýsingamiðstöðinni í október og nóvember jókst að meðaltali um 194% milli ára 2007 og 2008. Í takt við metfjölda í upplýsingamiðstöðinni í desember varð alger sprengja í endurgreiðslu virðisauka til erlendra ferðamanna í þeim mánuði eða 400% og því líklegt að töluvert margir hafi keypt jólagjafir í borginni áður en haldið var heim.