Fara í efni

Metaðsókn að Upplýsingamiðstöðinni í Varmahlíð

Upplysingamiðst_Varmahl_tjald
Upplysingamiðst_Varmahl_tjald

Í júnímánuði heimsóttu Upplýsingamiðstöðina í Varmahlíð um 3000 manns, en það er um 500 manna aukning frá júnímánuði í fyrra, segir í frétt frá upplýsingamiðstöðinni. Gestakomum fjölgar þar ár frá ári og eru gestir nokkuð jafn margir; íslenskir sem erlendir.

Í Upplýsingamiðstöðinni er rekin handverkssala auk þess sem gestir hafa frían aðgang að nettengdri tölvu og alltaf er heitt á könnunni. Á vormánuðum var tekin upp sú nýjung að gera Upplýsingamiðstöðina að heitum reit, en þá geta gestir komið með sínar eigin fartölvur og tengst internetinu.

Í tengslum við Landsmót hestamanna opnaði Upplýsingamiðstöðin útibú á Vindheimamelum (sjá mynd) þar sem gestir gátu nálgast allar upplýsingar um úrslit, keppnir og dóma auk upplýsinga um ferða- og afþreyingarmöguleika í Skagafirði. Þá var upplýsingatjaldið með til sölu ýmsan varning svo sem minjagripi merkta Landsmótinu, póstkort, bækur o.fl., þar var einnig hægt að komast á netið. Upplýsingatjaldið var opið alla Landsmótsvikuna frá 9.00-19.00 en frá og með fimmtudagskvöldi til 22.00.

Upplýsingamiðstöðin í Varmahlíð annaðist, fyrir hönd Landsmótsins, afhendingu aðgöngumiða fyrir starfsmenn, blaðamenn, boðsmiða og miða sem keyptir voru í forsölu, var því mikil umferð um húsið fyrstu daga mótsins auk þess sem fjöldi Landsmótsgesta lagði leið sína í Varmahlíð til að nálgast upplýsingar, bæklinga og dreifildi um afþreyingarmöguleika í firðinum.