Fara í efni

Merki Hreint og öruggt / Clean & Safe í boði fyrir ferðaþjónustufyrirtæki

Merki Hreint og öruggt / Clean & Safe í boði fyrir ferðaþjónustufyrirtæki

Í nýútkominni könnun frá Evrópska ferðamálaráðinu ETC um ferðaáform Evrópubúa koma athyglisverðar niðurstöður í ljós, líkt og sjá má í frétt sem Ferðamálastofa birti á dögunum. Skýrslan sýnir m.a. áhugaverðar niðurstöður um viðhorf fólks til öryggis- og sóttvarnareglna þar sem 67% aðspurðra segja að strangar öryggis-og sóttvarnaráðstafanir byggi upp traust og geri ferðalagið ánægjulegra.

Áhersla á heilsu og öryggi viðskiptavina og gesta skiptir því verulegu máli, hvort heldur um er að ræða sóttvarnaráðstafanir á áfangastað og/eða hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum sjálfum.

Skýrsluhöfundar beina því til áfangastaða að þróa strangar heilsu- og öryggisreglur til að vinna sér inn frekara traust ferðamanna þar sem heilsa þeirra er í forgrunni.

Mikilvægt er að ferðaþjónustufyrirtæki nýti sér þetta í beinum samskiptum við viðskiptavini sína. Skilaboðin þurfa að vera skýr og sóttvarnaráðstafanir og leiðbeiningar sýnilegar til að auka enn frekar á traust ferðamanna.

Minnum á hreint og öruggt

Því er vel við hæfi að minna alla ferðaþjónustuaðila á verkefnið Hreint og öruggt, Clean & Safe, sem Ferðamálastofa fór af stað með í desember síðastliðnum og kallast vel á við við þær niðurstöður og áherslur sem koma fram í ETC könnuninni.

Hreint og öruggt / Clean & Safe byggir á erlendri fyrirmynd og hefur verið samþykkt af World Travel and Tourism Council. Verkefninu er ætlað að hjálpa ferðaþjónustuaðilum að taka á ábyrgan hátt á móti viðskiptavinum sínum þannig að þeir upplifi sig örugga um leið og þeir skapa góðar minningar.

Ferðamálastofa hvetur alla ferðaþjónustuaðila til að kynna sér og taka þátt í Hreint og öruggt og sýna í verki að okkur er umhugað um gesti okkar og að áfangastaðurinn Ísland sé öruggur heim að sækja.