Fara í efni

Markaðsstarfið í N.-Ameríku styrkt með ráðningu á nýjum starfsmanni

Ólafur William Hand hefur verið ráðinn markaðsstjóri Ferðamálaráðs Íslands á Norður-Ameríkumarkaði. Mun hann hefja störf á skrifstofu Ferðamálaráðs í New York um miðjan september næstkomandi.

Ólafur er fæddur í Bandaríkjunum árið 1968 en hefur verið búsettur hérlendis lengst af. Hann hefur sérhæft sig í markaðs- og útflutningsfræði við Háskóla Íslands og starfað við sölu- og markaðsmál síðastliðin 15 ár. Hann var einn af stofnendum Apple-búðarinnar á Íslandi og starfaði að markaðs- og sölumálum á Apple búnaði í 10 ár. Þá starfaði hann hjá Radíóbúðinni, Aco og Tæknivali og nú síðast hjá Expert, þar sem hann hefur gengt starfi rekstrar- og markaðsstjóra. Þá hefur hann setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja, m.a. CCP sem framleiðir Eve-online tölvuleikinn og Apple IMC á Íslandi. Ólafur hefur starfað talsvert innan íþróttahreyfingarinnar, sérstaklega í tengslum við uppbyggingu og útbreiðslu Taekwondo-íþróttarinnar hérlendis. Unnusta Ólafs er Þórdís Filipsdóttir, einkaþjálfari.

Ólafur kvaðst mjög spenntur að takast á við nýtt starf en hann mun sem fyrr segir koma til starfa hjá Ferðamálaráði um miðjan september næstkomandi.

Öflugur viðbótarliðsmaður
Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, kveðst mjög ánægður með ráðningu Ólafs. ?Bandaríki Norður-Ameríku hafa verið einn mikilvægasti markaður íslenskrar ferðaþjónustu í áraraðir. Skrifstofu Ferðamálaráðs í New York hefur verið stýrt farsællega af Einari Gústavssyni og bætist honum nú nýr og öflugur liðsauki. Ráðning Ólafs er liður í þeirri stefnumótun Ferðamálaráðs að styrkja enn frekar sölu- og markstarf fyrir íslenska ferðaþjónustu. Við væntum mikils af Ólafi enda er hann reyndur sölu- og markaðsmaður og munu kraftar hans ekki síst nýtast í verkefninu Iceland Naturally sem er vistað hjá Ferðamálaráði,? segir Ársæll.